151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:31]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fæðingarorlofslöggjöfin sem hefur verið í gildi er um 20 ára gömul og var sett í tíð Páls Péturssonar, þáverandi félagsmálaráðherra. Núverandi ríkisstjórn setti það á stefnuskrá sína að ætla að stórefla fæðingarorlofskerfið. Við höfum á þessu kjörtímabili hækkað greiðslur í fæðingarorlofi og við höfum einnig lengt fæðingarorlofið í 12 mánuði með því frumvarpi sem við erum með hér. Þetta leggur sig út með þeim hætti að það fjármagn sem rennur til barnafjölskyldna í landinu hækkar frá 10 milljörðum upp í 20 milljarða á ársgrunni þegar þessar aðgerðir eru að fullu komnar til framkvæmda í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þetta er stóra málið. Við erum að endurreisa fæðingarorlofskerfið. Við erum að tvöfalda þær greiðslur sem renna til barnafjölskyldna í gegnum þetta mikilvæga kerfi og af því er ég gríðarlega stoltur.