151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega gleðiefni að við skulum stíga það stóra skref að koma með frumvarp sem veitir foreldrum 12 mánaða fæðingarorlof. En mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig örfáir þingmenn eða einstaklingar hér, hluti 63 þingmanna, ætla að fara að ráða því hvernig foreldrar nýta sér þá 12 mánuði. Þeir ætla jafnvel að verða þess valdandi að sumir foreldrar hafi ekki einu sinni bolmagn til að nýta alla mánuðina vegna þess að þeir hafa ekki efni á því að fara heim, annað foreldrið hefur ekki efni á að fara heim, hvort sem það er móðirin eða faðirinn. Væntanlega mun það lenda á föðurnum.

Mega foreldrar þá ekki fá að njóta vafans og ráða því sjálfir? Mega þeir ekki hafa þennan fæðingarorlofstíma skilyrðislaust? Ég nú er ekki vön að vera sammála Miðflokknum og Sigríði Á. Andersen, það get ég guðsvarið. Ég hefði nú aldrei trúað því að ég ætti eftir að standa gapandi hér og segja nákvæmlega það sem ég segi hér og nú: Þessi forræðishyggja er algerlega síðasta sort.