151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Ég styð þessa breytingartillögu. Það sem ég gerði til að taka upplýsta ákvörðun um málið var að spyrja hv. þingmann Pírata í nefndinni, Söru Elísu Þórðardóttur, hvað hefði verið sagt að væri betra fyrir börnin. Miðað við frumvarpið sem lá á borðinu var sveigjanleikinn upp á tvo mánuði. Að auka sveigjanleikann miðað við þá stöðu væri betra fyrir börnin. Þess vegna greiði ég atkvæði með þessu máli. Það er áhugavert að heyra þær tölur að það séu 10% karla sem nýta þennan sveigjanleika. Kannski þarf þar að koma með lausnir annars staðar frá. Það virðist vera betra fyrir börnin að sveigjanleikinn sé til staðar. Það er líka betra fyrir fjölskyldur sem búa ekki við þennan sveigjanleika og gætu þar af leiðandi nýtt orlofið eins og þeim hentar. Í mínu tilfelli t.d. var ég í sex mánaða orlofi og konan í þrjá þegar við vorum með barn okkar. Svo fór hún í nám og ég var með barnið. Það er kannski ekki alls staðar í boði að gera þetta svona. En það sem kom skýrt fram í nefndinni var að miðað við það frumvarp sem liggur á borðinu er betra fyrir börnin að hafa meiri sveigjanleika. Þessi tillaga meiri hlutans snýst um að auka þennan sveigjanleika lítillega. (Forseti hringir.) Ég get ekki nálgast það öðruvísi en það sé betra fyrir börnin og greiði því atkvæði með tillögunni.

(Forseti (SJS): Þingmaðurinn segir þá já?) — Já.