151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég tel að við séum hér að bæta Covid-kostnað sem fallinn er. Ég hef ekki fengið neinar aðrar upplýsingar en hv. þingmaður hvað það varðar. Ég er nú nokkuð viss um það, því miður, að við eigum eftir að vera með fleiri fjárauka á komandi ári vegna þess að þetta er ekki búið. Það er alveg ljóst að meira er fram undan og það á eftir að gera upp árið í árslok. Þó að drjúgt liggi fyrir núna getur sannarlega átt eftir að koma í ljós eitthvað sem þarf að fara betur yfir, en við höfum fengið þær upplýsingar að úr þessu sé bætt. Það á líka við um löggæsluna. Eins og fram kemur á bls. 68 þá er hér um að ræða ríflega 550 millj. kr. framlag vegna Covid-kostnaðar og náttúrlega meira af því að svo fara 155 milljónir til lögregluembættanna. Þannig að verið er að mæta þessum viðamikla kostnaði hvað varðar löggæsluna. Við höfum líka, eins og hv. þingmaður veit, lagt SÁÁ og fleiri aðilum til fé í nokkrum fjáraukum til að reyna að bregðast við Covid-kostnaði.

Varðandi sveitarfélögin þá þekkjum við auðvitað þá umræðu og erum sammála því að þau eru hinn mikilvægi hlekkur í samfélagsumræðunni og -gæslunni. Það eru samtöl í gangi um hvort hægt sé að bregðast við einhverjum hlutum og ég treysti því að það haldi áfram. Auðvitað hefur verið bætt í, eins og við þekkjum, ekki bara þetta heldur fleira, eins og félagsþjónustuna o.fl. sem hér er verið að reyna að lagfæra. Það liggur líka fyrir að þrátt fyrir allt þá verður sveitarfélögunum aldrei alveg bættur þessi 50 milljarða kostnaður. Þau taka á sig kostnað eins og við, sem hitt stjórnsýslustigið.