151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[21:02]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður sé svolítið að rugla hlutum saman. Þegar kemur hins vegar að því að framlengja samninga sem eru í gildi þá er það alveg rétt, þá er það eins og hv. þingmaður lýsti og þá er ég að vísa sérstaklega í sjávarútvegsmálin. En utanríkisviðskiptaráðherra er utanríkisráðherra. Ég ætla ekkert að fara að karpa um þetta nú. Því hefur verið haldið hér fram að þegar skýrslubeiðni kemur frá hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni sé það einhver rannsóknarskýrsla. Það er alger misskilningur. Það verður bara að kalla eftir þeim upplýsingum sem þar eru, sem er sjálfsagt að þingið fái. En ef hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telja að þeir hafi gert mistök á þessum tíma þá eiga þeir bara að segja það. Þeir verða menn að meiri við það.

Alveg sama hvað okkur finnst um málið, sem á sér langan aðdraganda eins og kemur fram í úttektinni sem hefur verið dreift, margra ára aðdraganda, þá liggur alveg fyrir að það er af þeirri stærðargráðu að útilokað er annað, myndi ég ætla, en að það hafi verið rætt í ríkisstjórninni, bæði áður og ég tala nú ekki um þegar ríkisstjórnin þurfti að samþykkja það. Þótt við vitum, virðulegi forseti, að bæði í ríkisstjórn og á þingi þurfi menn oft að leita málamiðlana geta menn ekki komið hér og sagst bara ekkert hafa að þessu komið og ekkert af þessu vitað, sitjandi í ríkisstjórn. Það stenst enga skoðun. Ég veit að hv. þingmaður veit það og það er miklu hreinna að segja það þá bara beint út.