151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[21:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er skýrt í þessum fjárlögum að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn ætla ekki að bæta kjör eldri borgara og það eru kosningar eftir níu mánuði. Eldri borgarar munu ekki gleyma því. Miðflokkurinn flutti 14 breytingartillögur við frumvarpið, þar af þrjár varðandi eldri borgara. Þær voru allar felldar þrátt fyrir að vera fullfjármagnaðar. Miðflokkurinn er ábyrgur flokkur í fjármálum ríkisins og setur ekki fram ábyrgðarlausar tillögur upp á tugi milljarða. Við höfum stutt nauðsynlegar aðgerðir vegna faraldursins, það er bruðl í ríkisrekstrinum og vel hægt að hagræða án þess að það bitni á þeim sem þarf að aðstoða nú í erfiðleikum. „Báknið best“ er kjörorð Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu. Fjárlögin eru lituð af kosningum sem eru fram undan. Hagvöxtur þarf að vera mjög mikill ef ekki á að koma til niðurskurðar eða skattahækkana. Sá hagvöxtur er ekki fyrirsjáanlegur. Vandanum er velt yfir á næstu ríkisstjórn.