151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það gleður mig mjög að fá að sitja á Alþingi í dag og greiða atkvæði um þetta góða mál sem markar miklar framfarir, bæði fyrir barnafjölskyldur á Íslandi en líka framfarir fyrir jafnrétti kynjanna. Þetta mál snýst um tvennt: Að efla jafnrétti kynjanna, ekki síst á íslenskum vinnumarkaði, og að búa betur að barnafjölskyldum á Íslandi. Það uppfyllir þau skilyrði og það er mjög ánægjulegt að fá að taka þátt í þessari afgreiðslu hér og skynja þessa miklu samstöðu því að þetta er svo sannarlega mál sem hefur áhrif á gildismat samfélags, alveg eins og fæðingarorlofsfrumvarpið sem varð að lögum árið 2000 gerði. Það breytti afstöðu margra til þess að taka þátt í uppeldi barna sinna. Þetta er ánægjuleg stund og ég mun með gleði styðja þetta góða mál.