151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:22]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum að þetta er mikill gleðidagur, að við séum að samþykkja þessar miklu réttarbætur fyrir foreldra og börn og fjölskyldur í landinu og komandi kynslóðir og við eigum öll að vera stolt af því. Það eru fjölbreyttir hlutir í þessari löggjöf sem geta haft áhrif á hversu vel tekst til og því er löggjöfin alltaf í þróun. Það er margt hægt að gera þarna jafnt og þétt til að gera betur og enn betur. Þangað eigum við öll saman að stefna; hækka þökin, hækka lágmarkstekjurnar og auka sveigjanleika. Það lagaðist aðeins í dag frá upphaflega frumvarpinu. En þetta er gleðidagur og við getum haldið áfram að gera vel með þessari mikilvægu löggjöf.