151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

reglur Menntasjóðs um leigusamninga.

[15:28]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Við vitum að starfsfólk í opinberum stofnunum leggur sig fram um að greiða götu þeirra sem njóta þjónustu þeirra stofnana, en stundum lenda samviskusamir starfsmenn í því að framfylgja reglum og lögum sem eru ekki alls kostar sanngjörn. Það skipti nefnilega miklu máli hvernig búið er um hnútana þegar lögum og reglum er breytt. Og nú, þegar reglum um Menntasjóð námsmanna var breytt, bættist við ný krafa sem ekki hafði verið áður í þessum reglugerðum lánasjóðs námsmanna, nú þurfa nemendur að reiða fram þinglýstan leigusamning til að eiga kost á að fá greitt úr sjóðnum sem leigjendur á almennum húsnæðismarkaði. Þessi breyting var hvergi auglýst og hvergi kynnt nemendum sérstaklega. Þannig að þann 8. janúar síðastliðinn fengu nemendur skilaboð frá Menntasjóði um að skila inn þinglýstum leigusamningum innan 14 daga eða búast við því að námslán þeirra yrðu endurreiknuð.

Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hve margir nemendur hafi fengið skilaboð um að námslán þeirra hafi verið endurreiknuð vegna þess að þeim láðist að skila inn þessum þinglýsta leigusamningi. Hvers vegna var þessi breyting ekki kynnt betur? Hún virðist hafa komið mörgum afar mikið á óvart.