151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru kannski tvær hliðar á þessu máli. Það er þá annars vegar sú hlið sem hv. þingmaður dregur hér upp að það kostar bankakerfið gríðarlega fjármuni að binda allt þetta eigið fé í starfsemi sinni, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Ástæður þess að við höfum hlutina með þessum hætti má rekja til þess sem gerðist hér við fall bankanna. Þá töldu menn að viðnámsþróttur bankakerfisins væri algerlega ófullnægjandi og þessar eiginfjárkröfur kæmu í veg fyrir að eitthvað viðlíka gæti gerst. Enda sjáum við það núna, má segja, í þessari ótrúlega djúpu efnahagslægð sem við erum stödd í, að bankarnir þola þetta álag. Seðlabankinn hefur létt af fjármálafyrirtækjunum kvöðum, en það má alveg spyrja sig, og mér finnst þetta málefnalegt innlegg inn í umræðuna hér, hvar við eigum nákvæmlega að draga mörkin. Við þurfum m.a. að spyrja okkur að því hvort það sé eitthvað í lögunum eða reglunum sem slíkum eða hvort þetta liggi mögulega í því hvernig reglunum er beitt af hálfu Seðlabankans í dag; þ.e. krafan um áhættuvogina, hvernig hún er samansett, og hvernig aukarnir eru stilltir hverju sinni. Bankinn tók sveiflujöfnunaraukann bara strax niður í núll og kom þannig súrefni til bankakerfisins. Þetta eru risastórar spurningar og hér takast í raun og veru á grundvallarþættir, annars vegar það hversu sterkt og öflugt og vel fjármagnað kerfið er, hversu mikinn viðnámsþrótt við viljum hafa í bankakerfinu, og hins vegar hversu lítið við getum gert án þess að fórna of miklum hagsmunum í þessum efnum, hversu litlar kröfur er ásættanlegt að hafa á bankana þannig að (Forseti hringir.) bankarnir geti lánað á sem bestum kjörum? Þetta er jafnvægislist og mögulega er hún stillt dálítið stíft (Forseti hringir.) í þágu lítillar áhættu í dag og það er með tilkostnaði, það er rétt.