151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er engu nær um það hvað hv. þingmaður er að tala um. Hún vísar inn í framtíðina, að við þurfum að taka umræðuna, við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig kerfi við höfum. Hvernig væri að hv. þingmaður myndi bara segja hvernig kerfi hún vill sjá á fjármálamarkaði á Íslandi, það yrði útlistað hér, í stað þess að tala bara um að það væri æskilegt að hafa lága vexti og allir hefðu aðgang að fjármagni, fólk þyrfti að taka húsnæðislán o.s.frv.? Er ekki staðan sú í dag að við höfum aldrei í Íslandssögunni, í lýðveldissögunni, séð jafn greitt aðgengi að húsnæðislánum á jafn góðum kjörum og á við í dag? Er ekki staðan sú að lífeyrissjóðirnir veita sjóðfélögum sínum lán á hagstæðustu vöxtum sem við höfum séð í sögunni? Þurfa þeir að reka banka til þess? Nei, við erum með alveg sérstaklega góðar aðstæður. Allt sem ég heyri hv. þingmann tala um er í raun og veru rök fyrir því að létta byrðum af bönkunum sem mun auka áhættu í fjármálakerfinu. Það finnst mér að menn verði bara að segja hreint út ef þeir eru að mælast til þess, áður en við seljum banka, að við aukum áhættu í fjármálakerfinu, gerum minni kröfur um bundið eigið fé, gerum kröfur um að menn hafi minni ávöxtun af því sem þeir eru að fást við. Ef menn vilja taka Íslandsbanka og slátra virði hans þannig að það sé ómögulegt að hafa einhvern alvöruarð af öllu því eigið fé sem þar er bundið, þá skulum við undirbúa okkur undir það að taka nokkurra tuga milljarða högg á ríkisreikninginn vegna þess að við erum með bankann eignfærðan á 80% af bókfærðu virði.

Þetta er það sem hv. þingmaður er í raun og veru að tala um. Hún verður að svara því hvort hér sé verið að boða algera uppstokkun á viðskiptamódeli Íslandsbanka áður en hann verður seldur og í hvora áttina er það þá? Er það til að eyðileggja virði bankans með því að setja slík bönd á hann (Forseti hringir.) að hann geti ekki fengið arð af sinni starfsemi (Forseti hringir.) heldur eigi þetta allt saman að vera á núllrekstri eða er það til að létta honum það og auka áhættuna í kerfinu?