151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað hætt við hann grotni niður með þessu eignarhaldi sem nú er, með tímanum. Alveg eins og íslensku ríkisbankarnir grotnuðu niður jafnt og þétt og kostuðu skattgreiðendur stórfé á sínum tíma. Það var að vísu áður en hv. þingmaður komst til vits og ára en við gömlu þingmennirnir munum þetta. Þetta voru ónýtir bankar. Einkavæðingin á þeim og salan á þeim, þó að margt hafi farið úrskeiðis í því ferli, kom ekki niður á þessari þjóð. Alþjóðleg bankakreppa varð ekki vegna þess að íslensku bankarnir voru einkavæddir, ef menn halda það. Það er ekkert í þessu ferli sem þarf að hafa áhyggjur af. Það er bara verið að selja hlut ef við fáum ásættanlegt verð. Það er ekki spurning um neitt ferli í því. Þetta er mjög einfalt. Það er verið að sá tortryggni og það er mjög auðvelt vegna þess að hér varð hrun. Það er svo auðvelt að sá tortryggni við þessar aðstæður.

Það blasir við mér, hv. þingmaður, að það er enginn sérstakur vilji, þegar maður hlustar á málflutning ykkar, til að losa þennan eignarhlut. Þið, hv. þingmenn, talið alltaf um mikilvægi þess að hlusta á sérfræðinga og horfa til annarra landa. Allir sérfræðingar segja: Það er tóm della að ríkið eigi tvo þriðju af öllu bankakerfinu. Tóm della. Hvað gera önnur lönd? Það dettur engri annarri þjóð í hug að ríkið reki alla stærstu viðskiptabanka landsins? Það dettur engri þjóð þetta í hug. Nei, nú má ekki hlusta á sérfræðingana og vísindin. Um hvað eru menn að tala? Hvaða leið ætla menn að fara? Finnst mönnum eðlilegt að skattgreiðendur sitji með áhættu af öllu bankakerfinu í fanginu? Hvað hefði gerst í hruninu hefðum við ekki verið búin að losa þessa banka? (SMc: Það gerðum við í hruninu.) — Nei, með allt öðrum hætti, það hefði orðið miklu meira. Við hefðum orðið að bæta kröfuhöfunum þetta. Við skildum þá eftir í bankahruninu með tjónið, (Forseti hringir.) við hefðum ekki getað gert það hefðu þetta verið ríkisbankar, eins og þeir voru áður.