151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við erum sem betur fer með löggjöf sem á að geta staðist, sama hver það er sem er nákvæmlega í forystu fyrir málaflokkinn, þ.e. nema fram fari sérstök umræða hér á Alþingi um að breyta löggjöfinni. Það hefur hæstv. fjármálaráðherra ekki gert í þessari umræðu heldur er verið að fara í söluferli samkvæmt gildandi lögum sem hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson kom ekki að því að setja. Ef við viljum halda áfram með bílstjóralíkinguna held ég að eiginlega verði að benda á að það er í rauninni Bankasýslan sem fer með ansi drjúgan hlut í því að vera í bílstjórasætinu.

Hv. þingmaður spyr hvort það sé eitthvað óheilbrigt við að ríkið eigi hlut í banka. Nei, síður en svo, í það minnsta ekki að mínu mati og ekki heldur minnar hreyfingar. Ég vil þess vegna ítreka það sem ég sagði hér í ræðu minni að það er í stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að við viljum eiga Landsbankann. Þess vegna er það í algerum takti við okkar stefnu (Forseti hringir.) að draga úr eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Það þýðir ekkert að reyna að grugga vatnið eitthvað með það. (Forseti hringir.) Það er partur af stefnumótun okkar. Þetta er bara í takti við hana.