151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:52]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í ræðu minni var ég kannski fyrst og fremst að vísa til þess að bent hefði verið á kosti og ókosti í umræðunni í dag. Ókosturinn eða kannski mesta áskorunin er tortryggni í samfélaginu. Henni er mikilvægt að mæta með upplýstri umræðu eins og þeirri sem hér fer fram og með fræðslu frá stjórnvöldum sem eiga að sinna því að upplýsa um þá laga- og reglusetningu sem hefur farið fram á Alþingi á síðustu rúmu tíu árum. Þarna er auðvitað stærsti ókosturinn. Svo þarf auðvitað að fylgja sölunni svolítið greining á fjárstreyminu. Það er ekki skynsamlegt að ríkið reki banka til að afla tekna. Það getur auðvitað verið skynsamlegt ef við erum að tala um samfélagsbanka, að ríkið reki banka til að tryggja að fólk geti komið sér upp þaki yfir höfuðið, að atvinnulífið hafi aðgang að fjármagni til atvinnuþróunar, að samfélagið geti aflað meiri tekna. Það getur varla verið og átt að vera markmið ríkisins að afla tekna með fjármálastarfsemi.