151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Að selja banka eða eiga banka er spurning sem við hér á þingi stöndum frammi fyrir. Ég verð að viðurkenna að umræðan hér í gær kom mér svolítið á óvart því að í raun trúði ég því að flestir væru sammála um að það væri ekki hlutverk ríkisins að eiga banka. Ég held að þingmenn þurfi þá að svara því núna hvað við eigum að eiga marga banka eða hve stóran hluta í bönkum, eða bara hvað ríkið á yfir höfuð að eiga, hvers konar atvinnurekstur eðlilegt er að ríkið stundi. Eigum við að eiga flugfélag? Margir lögðu það til hér, ekki alls fyrir löngu, að ríkið kæmi inn og ætti hlut í Icelandair. Eigum við að eiga sementsverksmiðjur eða malbikunarverksmiðjur? Reykjavíkurborg hefur ákveðið að það sé mjög skynsamlegt að eiga malbikunarverksmiðju. Við getum líka farið að velta fyrir okkur matvælaframleiðslufyrirtækjum, því að það hefur jú með þjóðaröryggi okkar að gera. Kannski ætti ríkið að kaupa fiskeldisfyrirtæki. Það virðist vera mjög óvinsælt að Norðmenn eigi slíkt fyrirtæki en þegar kemur að bönkum finnst okkur engu að síður mjög mikilvægt að erlendir aðilar komi að því með reynslu af eignarhaldi á bönkum. Er ekki rétt að við hættum að reyna að ákveða hverjir eigi og reki fyrirtæki sem eiga augljóslega að vera í höndum einkaaðila og einbeitum okkur að því að setja regluverk utan um slíka starfsemi?

Varðandi fjármálastarfsemina hefur örugglega enginn lagabálkur fengið jafn mikla breytingu og einmitt fjármálaumhverfið á síðustu árum. Hér er því verið að leggja til varfærna og gegnsæja leið til að losa um hluta, bara hluta, í Íslandsbanka. Enn er ekki lagt til að gera neitt varðandi Landsbankann. Ég held að við ættum að geta sameinast um að það sé skynsamlegt að hefja þessa vegferð.