151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég ætla að beina sjónum að stöðu kvenna í atvinnulífinu. Nýlega bárust fréttir af því að GEMMAQ, íslenskt sprotafyrirtæki, hafi unnið svokallaða lesborð þar sem í fyrsta sinn er varpað fram með myndrænum hætti kynjahlutföllum stærstu fyrirtækja á Bandaríkjamarkaði, svonefndum Fortune 500-fyrirtækjum. Fyrir þetta framtak náði GEMMAQ á lista yfir 50 frambærilegustu sprotafyrirtæki sem tengjast New York-borg. Fyrirtækið hefur einnig tekið saman sambærilegar upplýsingar um kynjahlutföll í leiðtogastöðum fyrirtækja í Kauphöll Íslands. Þar kemur margt merkilegt fram. Marel, Sjóvá og Vátryggingafélag Íslands fá níu í einkunn af tíu mögulegum. Einkunnin tíu fæst ef hlutföll kynjanna eru jöfn en fyrirtæki fá 0 í einkunn ef engar konur gegna stjórnunarstörfum hjá fyrirtækinu. Fimm félög fá fimm og hálfan í einkunn, sem kallast rétt að ná og er ekki góð einkunn til afspurnar. Eitt fyrirtæki fær fjóra, sem er í mínum bókum falleinkunn.

Við höfum náð góðum árangri í jafnréttismálum og tól eins og það sem GEMMAQ hefur þróað er mikilvægt í framhaldi þeirrar baráttu. Fjárfestar horfa sífellt meira til jafnréttismála við mat á fjárfestingarkostum og fólk sem er í atvinnuleit og neytendur í mati á því hvar þeir kjósa að stunda sín viðskipti. Það er því mikið virði fólgið í því að hafa jafnréttismálin í lagi og virðið mun bara koma til með að aukast. Jafnlaunavottun, sem Viðreisn átti frumkvæði að að gera að lögum, og kynjakvóti í stjórnum styðja við þessa baráttu og auðvelda fyrirtækjum að taka jafnréttismál sín föstum tökum. Núna sjáum við síðan íslenska hugvitið, íslenska nýsköpun, færa það upp á nýtt stig (Forseti hringir.) og flytja út fyrir landsteinana með miðlun upplýsinga til almennings og fjárfesta. Þannig getum við stuðlað saman að jöfnum rétti og jöfnum tækifærum fólks óháð kyni.