151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú er liðinn mánuður frá því að ósköpin dundu yfir á Seyðisfirði þegar aurskriða rauf stórt skarð í byggðina. Þvílík mildi að enginn slasaðist í þeim hamförum. Síðasta mánuðinn hefur fjöldi fólks unnið magnað og mikilvægt starf á Seyðisfirði og eiga allir mikið hrós skilið. Verkefnin sem enn bíða eru líka ærin. Gleymum ekki að það þarf úthald og eftirfylgni við að leysa þau. Áfram þarf að styðja og hlúa að fólkinu á Seyðisfirði og alls ekki má gleyma öllum þeim innflytjendum sem margir eru þar fjarri stórfjölskyldum. Það er vel að sálfræðiþjónusta við Seyðfirðinga hefur verið efld en fleiri gegna mikilvægu hlutverki í þessu sambandi, svo sem samferðafólk, kirkjan og Rauði krossinn. Það þarf að endurskoða áhættumat, meta leiðir við vöktun og ofanflóðavarnir, endurskoða skipulag, varðveislu menningarminja og uppbyggingu mannvirkja. Öll þessi verkefni krefjast samstarfs heimamanna, stjórnvalda á svæðinu og á landsvísu. Sveitarstjórn Múlaþings fær svo sannarlega krefjandi viðfangsefni til að takast á við strax á fyrstu mánuðum í starfi. Margt þarf að gerast hratt en í annað er mikilvægt að gefa sér tíma, svo sem að vinna að mótun framtíðarskipulags byggðar í Seyðisfirði og framtíðarsýn og lausnum við varðveislu menningarverðmæta. Stofnanir ríkis og sveitarfélaga þurfa hver og ein að rækta sitt hlutverk í þeim verkefnum sem fyrir liggja. Gleymum því samt ekki að uppbyggingin veltur á dug og krafti Seyðfirðinga sjálfra sem þeir hafa sannarlega sýnt að þeir eiga nóg af. Stjórnvöld þurfa að tryggja greiðar samskiptaleiðir milli þeirra sem fara með mismunandi hlutverk í stjórnsýslu og þjónustu og íbúa Seyðisfjarðar sem fást við mismunandi persónuleg og samfélagsleg (Forseti hringir.) verkefni í uppbyggingunni. Áfram Seyðfirðingar. Gangi ykkur vel.