151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum um afar mikilvægt mál í dag, frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla er varðar stuðning við einkarekna fjölmiðla. Hvers vegna er það mikilvægt? Jú, vegna þess að fjölmiðlar eru einn af máttarstólpum lýðræðis. Mikilvægi fjölmiðla í lýðræðissamfélagi er ótvírætt því það er frá fjölmiðlum sem almenningur fær upplýsingar um allt það sem varðar samfélagið, um það sem gerist t.d. hér á Alþingi, hvernig framkvæmdarvaldið hegðar sér og hvernig stofnanir eru reknar og bara allt sem er. Það er nákvæmlega þetta sem skiptir öllu máli þegar við horfum á það hvort ástæða sé til að styrkja einkarekna fjölmiðla.

Hér hefur verið örlítil umræða um stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði, ég ætla að ræða það aðeins á eftir, en það er ekki hægt að horfa fram hjá því að einkareknir fjölmiðlar hafa verið í töluverðum vanda á undanförnum árum, löngu áður en kórónuveiran lagði heimsbyggðina á hliðina. Mikil breyting hefur orðið með þeirri stanslausu fréttaveitu sem við fáum núna í gegnum samfélagsmiðla og netið þar sem við erum stöðugir neytendur alls kyns upplýsinga, fyrir utan það að við erum neytendur upplýsinga sem eru ekki faglega unnar. Þar liggja einmitt mörkin. Verið er að mata okkur, almenning, á upplýsingum sem stundum eru mjög faglega unnar en eiga stundum ekki við rök að styðjast.

Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að fjölmiðlar í dreifbýli hafa einnig mjög mikilvægu hlutverki að gegna, bæði staðbundnu og á landsvísu, af því að þeir eru gátt inn í það samfélag sem er lengra í burtu. Þá erum við líka að tala um fjölmiðla sem annast fréttir utan úr heimi fyrir eyríki eins og Ísland. Við þurfum að vita hvað gengur á annars staðar en í dag er ekki bara fréttatími klukkan átta á kvöldin í Ríkissjónvarpinu sem meginþorri þjóðarinnar horfir á heldur er stöðug fréttaveita allan liðlangan daginn í gegnum hina ýmsu fjölmiðla.

Þannig hefur breytingin á fjölmiðlamarkaðnum orðið og það hefur leitt til þess að umtalsverð breyting hefur orðið á auglýsingamarkaði. Það er líka ástæða þess að það er algjörlega nauðsynlegt að Alþingi hraði afgreiðslu þessa máls, vinni það vissulega vel og ítarlega en tryggi að málið verði afgreitt á þessu löggjafarþingi. Auglýsingatekjur fjölmiðla, hvort sem um er að ræða þjóðarútvarpið okkar eða einkarekna fjölmiðla, hafa hrunið algerlega á undanförnum mánuðum og auðvitað hefur það mjög mikil áhrif á reksturinn. Þess vegna finnur stór fjölmiðill hér á landi, Sýn, sig knúinn til þess í dag að loka fréttatíma sínum fyrir þeim sem ekki eru áskrifendur og er það miður að mínu áliti. Ég tel þá fréttastofu mjög mikilvæga. Ég tel mjög mikilvægt að við höfum a.m.k. tvær sjónvarpsfréttastöðvar. Þó að við getum núna sótt okkur alls konar upplýsingar í erlendum miðlum er nauðsynlegt að við höfum tvo möguleika á að fá fréttir af innlendum vettvangi því að fréttir héðan eru sárasjaldnast í öðrum fréttamiðlum, nema þegar einhverjir skandalar verða hjá stjórnvöldum eða öðrum.

Mig langar aðeins að koma inn á ákvæðið er varðar skilyrði fyrir rekstrarstuðningi. Í þessu frumvarpi er margt ágætt og algerlega nauðsynlegt. Hér er talað um að fjölmiðill skuli vera skráður og hafa leyfi, hafa starfað með leyfi frá fjölmiðlanefnd óslitið í 12 mánuði eða lengur og hafa a.m.k. þrjá starfsmenn í fullu starfi. Í 4. tölulið b-liðar 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Fjölmiðlaveita skal hafa staðið skil á árlegri skýrslugjöf til fjölmiðlanefndar skv. 23. gr. vegna ársins á undan og hafa veitt fjölmiðlanefnd fullnægjandi gögn og upplýsingar um eignarhald fjölmiðlaveitunnar, þ.m.t. gögn um raunverulegan eiganda.“

Það finnst mér vera lykilatriði en því miður hefur fjölmiðlanefnd ekki fengið það starfsumhverfi sem nauðsynlegt er til þess að geta hreinlega gengið hart fram gagnvart fjölmiðlum um að veita skýrar upplýsingar um raunverulega eigendur. Það er grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi. Við vorum hér með fjölmiðil sem var árum saman rekinn án þess að almenningur vissi hver ætti hann. Einhver huldueigandi var skráður en allir vissu að það var ekki sá sem skráður var sem reyndist vera eigandi fjölmiðilsins. Og af hverju skiptir það máli? Jú, vegna þess að við, neytendur frétta og fréttatengds efnis, þurfum að vita hvort um er að ræða hlutdræga eða hlutlæga umfjöllun fjölmiðils. Það er mjög mikilvægt, ekki síst í fjölmiðlaumhverfinu í dag þar sem er ofgnótt af upplýsingum.

Fram kemur í frumvarpinu að fyrirtæki megi ekki vera í vanskilum. Það er mjög gott og nauðsynlegt að undanskilja alla þá fjölmiðla frá rekstrarstuðningi sem hafa ekki greitt lögbundin gjöld til opinberra aðila, lífeyrissjóða og stéttarfélaga. Þeir verða undanskildir því að fá einhvern rekstrarstuðning og er það gott. En ég velti fyrir mér hvort nefndarfólk í hv. allsherjar- og menntamálanefnd eigi að bæta við þarna ákvæði um að undanskilja fjölmiðla ef eigendur geyma hluta fjár síns í skattaskjólum og taka þar af leiðandi ekki þátt í íslensku samfélagi. Ég held að það sé mikilvægt að senda skýr skilaboð út í samfélagið. Ætli eigandi fjölmiðils að fá stuðning frá íslenskum almenningi verður hann að taka ásamt íslenskum almenningi þátt í rekstri samfélagsins. Ég held að það séu skilaboð sem stjórnvöld verða að koma á framfæri af því að við erum jú öll í þessu saman.

Farið er aðeins ofan í útfærslur á þessu öllu, hvernig á að fara með þetta allt saman og hvernig eigi að reikna það. Aftur er lagt til styrkjakerfi í svipaðri mynd og var í fyrri tvö skiptin sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt fram viðlíka frumvarp eða gert tilraun til þess. Talað er um styrki til fjölmiðla, alls tæplega 400 millj. kr. á ári. Þá verður maður að skoða hvernig það dreifist. Þetta náði að valda titringi í íslensku samfélagi af því að við styrkjaúthlutun núna vegna Covid-faraldursins kom í ljós að 75% af þeim fjármunum sem voru til úthlutunar fóru til þriggja fyrirtækja, þ.e. 300 af 400 milljónum.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr mikilvægi stórra fjölmiðla, alls ekki, af því að stórir fjölmiðlar hafa meiri möguleika alla jafna til að vera með víðtækari og dýpri fréttaskýringar og þess háttar. En ef við horfum á íslenskan fjölmiðlamarkað þá virðist sem það lögmál gildi ekki endilega á Íslandi, ekki þegar kemur að fréttum og að kafa djúpt ofan í fréttir og rekja og stunda rannsóknarblaðamennsku. Þvert á móti erum við hér á okkar litla landi einmitt með litla fjölmiðla með fáum starfsmönnum sem hafa verið í fararbroddi þegar kemur að rannsóknarblaðamennsku. Það blasir við þegar maður horfir á hvernig úthlutun fór fram að ef fjölmiðillinn lætur fátt starfsfólk hlaupa nógu hratt og ganga vinnuna upp að öxlum er ekki verið að horfa á hvað er framleitt heldur hversu margir framleiða það. Þá veltir maður fyrir sér hvort betra sé að vera með fleira fólk innan borðs sem gerir minna eða er í öðrum störfum meðfram eins og kann að vera. Við hljótum að vera sammála um að það er ekki betra að samþjöppun verði á fjölmiðlamarkaði.

Enginn fjölmiðill getur fengið meira en 25% af heildarupphæðinni eða hæst tæpar 100 milljónir. Þarna sópuðu þrír fjölmiðlar til sín meginþorra styrkjanna. Það viðheldur þeirri bjögun sem verið hefur á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem birtist í því að fjársterkir aðilar niðurgreiða af einhverjum ástæðum rekstur, ár eftir ár og jafnvel áratugi, sem er í bullandi tapi án þess að gera nauðsynlegar aðlaganir á rekstrinum. Þá komum við aftur að lýðræðinu því að fjársterkir aðilar, stórir aðilar í viðskiptalífinu, sjá sér hag í því að eiga fjölmiðla. Þá er ekki hagurinn að eiga fjölmiðil sem spilar barnatíma á morgnana og skemmtiefni á kvöldin heldur einmitt fjölmiðil sem miðlar fréttum. Þetta er sambærilegt annars staðar í heiminum.

Mig langar aðeins að koma inn á umsögn Samkeppniseftirlitsins um styrkjakerfi fyrir fjölmiðla en þar kemur fram að Samkeppniseftirlitið telji brýnt að stuðningur við fjölmiðla af almannafé hafi það að meginmarkmiði að styðja við fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi hefur Samkeppniseftirlitið í huga að eignarhald stærri einkarekinna fjölmiðla hefur í vaxandi mæli þróast á þann veg að eignarhaldið hefur færst á hendur fjársterkra aðila sem standa fyrir tiltekna skilgreinda hagsmuni í íslensku atvinnulífi. Í sumum tilvikum blasir við að ráðstöfun þessara aðila á fjármunum í fjölmiðlarekstur hefur það meginmarkmið að ljá hagsmunum viðkomandi aðila enn sterkari rödd og vinna þeim þannig frekari framgang.“

Það er nákvæmlega þetta sem við þurfum að hafa í huga, frú forseti, þegar hv. allsherjar- og menntamálanefnd vinnur þetta mál. Ætlum við að stuðla að samþjöppun á markaði? Ætlum við að efla fjársterku aðilana eða ætlum við að örva fjölmiðlamarkaðinn þannig að fleiri minni aðilar leggi í það flókna umhverfi sem fjölmiðlamarkaðurinn er?

Hér eru fjölmargar aðrar umsagnir sem væri gott að fara í, en tíminn er því miður á þrotum. Ég minni á að þjóðarútvarpið okkar sinnir öðrum mikilvægum verkefnum en þeir einkamiðlar sem eru á markaði og hafa verið á markaði síðustu 30 árin. Það að standa hér í pontu Alþingis og tala stöðugt niður þjóðarútvarpið okkar er því miður merki um að hafa ekki skilning á því menningarhlutverki og því menntahlutverki og því öryggishlutverki sem þjóðarútvarpið okkar gegnir umfram aðra fjölmiðla. Mikil umræða hefur átt sér stað á Norðurlöndunum á umliðnum árum um leiðir til að styrkja fjölmiðla. Einkafjölmiðlar eru styrktir umtalsvert á Norðurlöndum, sem reka líka þjóðarútvörp og þjóðarsjónvörp. Við skulum vera stoltir eigendur að Ríkisútvarpinu því það er sameiginleg eign okkar.