151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ljúka umræðu um ríkisstyrki til einkarekinna fjölmiðla. Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort henni finnist eðlilegt í þessu samhengi að styrkja alla fjölmiðla. Nú eiga auðmenn fjölmiðla og ég get ekki séð að þeir þurfi styrk til þess að koma málum sínum á framfæri. Það hlýtur að vera tilgangur þeirra með því að eiga fjölmiðla að koma sínum málum áfram. Þarna er um 400 millj. kr. að ræða og ég hef á tilfinningunni að sú upphæð eigi eftir að hækka. Við þekkjum það af reynslunni. Við vorum með 100–200 millj. kr. til stjórnmálaflokkanna. Það er komið upp í 700–800 millj. kr. í dag — tilhneigingin er sú að þetta blási út.

Ég spyr hvort ekki hefði verið betra að fara finnsku leiðina, styrkja t.d. litlu blöðin úti á landi, fara aðra leið en þá að setja alla þessa fjármuni í þetta. Á sama tíma erum við að tala um að selja banka vegna þess að ríkið eigi ekki að standa í bankastarfsemi. Það gefur þó peninga til baka. Á sama tíma erum við með stóra fílinn í stofunni, RÚV. Þjóðin verður að borga 5 milljarða, frá 18 ára aldri verða menn bara að gjöra svo vel að borga inn í þennan sjóð. Svo hefur RÚV 2 milljarða í auglýsingatekjur. Er ekki betra að byrja á því að takmarka RÚV, láta það berjast fyrir því að varðveita íslenska tungu og gera eitthvað allt annað í stað þess að setja allt þetta fólk á jötuna. Eins og komið hefur fram fá ríkustu fjölmiðlarnir 70% af þessu og hinir litlu 30%.