151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

tekjuskattur.

399. mál
[18:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi þá reglugerð sem mun setja rammann utan um umhverfisvottun og hvaða viðurkenndu aðila um er að ræða. Þá velti ég fyrir mér hvort efnahags- og viðskiptanefnd þyrfti kannski að fá að sjá drög að reglugerðinni, hvort það þyrfti að hafa eitthvert samráð við umhverfisráðuneytið eða Umhverfisstofnun varðandi það. Umhverfisstofnun heldur utan um umhverfisvottanir hér á landi. Ég held að það mætti styrkja þetta til þess að við séum með það alveg á hreinu frá fyrsta degi hvert eigi að stefna til þess einmitt að ásetningur hæstv. ráðherra náist.

Síðan örstutt varðandi þennan nánast óraunhæfa ótta við að opnað geti verið á ívilnanir í þágu kolvetnisvinnslu þá hef ég svo sem ekki nagandi áhyggjur af því að það muni streyma opinbert fé í þann iðnað í gegnum þetta frumvarp verði það að lögum. En ég held að það skipti engu að síður miklu máli að það sé dregin lína í sandinn í öllum þeim lögum sem við samþykkjum, að hérna megin sé hið græna og hinum megin förum við ekki. Það er bara í samræmi við það sem ríki heims skuldbinda sig til í Parísarsamningnum, að koma í veg fyrir að opinbert fé renni í iðnað sem vinnur beinlínis gegn loftslagsmarkmiðum. Þannig að ég held að þetta sé eitthvað sem mætti vel skoða að hnýta utan um í nefndarstarfinu.