151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það var ekki seinna vænna að Covid-mál væru tekin til sérstakrar umræðu í fastanefndum Alþingis. Eftir að þingstörfin hófust eftir jólahlé hafa málefni Covid verið rædd frá ýmsum hliðum í hv. velferðarnefnd, m.a. er þar til umfjöllunar frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum og eins hafa verið tekin sérstaklega til umræðu málefni bólusetninga. Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi undanfarið að sitja tilfallandi tímabundið í hv. nefnd og hefur mér gefist kostur á að taka þátt í umræðum um þessi mál í nefndinni.

Fyrir meira en viku síðan fengum við gesti á fund nefndarinnar til að ræða þróun bólusetninga og öll mál er lúta að þeim. Ég óskaði eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu sem sendi gesti á fund nefndarinnar, ekkert mjög ítarlegum eða nákvæmum upplýsingum heldur bara einhverju sem ég hefði kallað grundvallarupplýsingar í grófum dráttum, ef þannig mætti orða það, virðulegur forseti, upplýsingar um hvenær ráðist hefði verið í kaup á tilteknum bóluefnum. Það liggur reyndar fyrir og var kynnt minnisblað frá ráðuneytinu, ágætis minnisblað, og farið yfir það. Af því má ráða að bóluefni hafi ekki verið keypt fyrr en í desember frá öllum öðrum en AstraZeneca, minnir mig. Ég óskaði eftir upplýsingum um kaup á bóluefnum á tilteknum dagsetningum sem þar voru gefnar upp. Ég hef ekki enn þá fengið þær upplýsingar, virðulegur forseti, eftir þó nokkra eftirgangsmuni í gegnum nefndina. Ég vil leggja áherslu á að í þessum málum verði allar upplýsingar veittar þingmönnum sem óska eftir því. Í raun hef ég lagt áherslu á að ráðuneytið geri gott betur (Forseti hringir.) og opinberi allar upplýsingar er lúta að framkvæmd vegna Covid-mála, bólusetninga og sóttvarnaaðgerða.