151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[15:43]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör. Það er ánægjulegt að heyra að Neytendasamtökin skuli vera styrkt því að þau eru mikilvæg í samfélagi okkar. Hæstv. ráðherra kom inn á það í ræðu sinni að til álita hefði komið, það mátti skilja það sem svo, að leggja niður Neytendastofu. Var það alvarlegt umræðuefni og telur hún ástæðu til að skoða það frekar?

Hlutverk ráðuneytisins varðandi neytendamálin er m.a. að innleiða tilskipanir úr evrópskri neytendaverndarlöggjöf í íslensk lög vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Það var mikið gæfuspor þegar við urðum aðilar að EES og mikið gæfuspor fyrir íslenska neytendur, ekki bara íslenska hagkerfið. Það var fyrir baráttu okkar jafnaðarmanna að það tókst, mikil blessun fyrir íslenskt samfélag. ESB leitar stöðugt leiða til að bæta rétt neytenda og neytendalöggjöfin er mjög sterk, m.a. til að styðja við bakið á neytendasamtökum í aðildarríkjunum. Í fjármálaráðuneytinu hefur lítil sem engin hefð verið fyrir því að tryggja samráð við fulltrúa neytenda eða hagsmunaaðila heimilanna. Þó hafa fulltrúar atvinnulífs og samtaka fjármálafyrirtækja haft nokkuð greiðan aðgang að samráði í nefndum og starfshópum ráðuneytisins þegar svo ber undir. En telur hæstv. ráðherra að þetta frumvarp tryggi það betur með einhverjum hætti að aukið samráð verði haft við hagsmunasamtök neytenda, bæði Neytendasamtökin og t.d. Hagsmunasamtök heimilanna? Getur ráðherra séð fyrir sér að Neytendasamtökin geti verið enn sterkari aðili í neytendavernd á Íslandi?