151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er í grunninn sammála hv. þingmanni um að þetta eru töluvert miklar breytingar, hún notaði orðið kollhnís. En svona lítum við ólíkt á málin; hér kom fulltrúi Samfylkingarinnar og sagði að engar byltingarkenndar breytingar væru í málinu sem er bara ekki rétt að mínu mati. Við erum að gera mjög stórar og miklar og þungar breytingar. Breytingarnar snúast fyrst og fremst um það að í dag er fyrirsjáanleikinn í þessum pottum sáralítill sem enginn. Við erum að skapa ákveðinn ramma utan um þennan þátt fiskveiðistjórnarkerfisins sem er gríðarlega mikilvægur, þetta eru um 5,3% allra aflaheimilda í landinu hverju sinni, mikil verðmæti. Við erum að skapa ákveðinn ramma. Við erum að segja til hvers þetta er ætlað. Við erum að setja þetta í markmið og síðan erum við að setja inn í lögin að meta skuli árangurinn af þeim aðgerðum sem við höfum verið í, og ekkert af þessu er í núgildandi löggjöf. Ég get alveg tekið undir það að sex ár eru töluvert langur tími, við viljum kannski að hlutirnir breytist hraðar en á sex árum. En eftir þessu var kallað og ég er ekki endilega fastur í því að þetta sé heilagt ártal. Þegar við erum að tala um fyrirsjáanleikann og að festa hlutdeildina er kosturinn við það að breytingin á veiðiheimildum í pottinum tekur þá sömu breytingum og eru í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og ákvörðun um veiðiheimildir landsins í heild sinni. Breytingarnar fylgja einfaldlega ráðgjöfinni með sama hætti og ákvörðun um veiðiheimildir ár hvert. (Forseti hringir.) Að því leyti getum við sagt að það sé ákveðinn fyrirsjáanleiki í því, það gilda bara sömu lögmál um úthlutun í pottana og um aðra hluta fiskveiðistjórnarinnar.