151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

horfur í ferðaþjónustu.

[10:33]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt, óvissan er enn til staðar. Það á bæði við um okkur hér innan lands en ekki síður og jafnvel enn frekar löndin í kringum okkur. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega Bretland og Bandaríkin og það flokkast undir hina svokölluðu ytri aðstæður, þ.e. við erum mjög háð því hver staðan er og verður þar næstu misseri en líka hvaða reglur þau lönd setja gagnvart sínum borgurum. Ákvarðanir þeirra á landamærum hafa mikil áhrif á okkur hér og ákvarðanir þeirra um það hvort fólk þurfi að fara í sóttkví þegar það kemur til baka hefur áhrif á ákvarðanatöku þess um hvort það komi hingað til lands eða ekki og ferðavilja almennt. Mín skilaboð til ferðaþjónustunnar og afleiddra starfsgreina innan hennar eru einfaldlega: Við stöndum með ykkur, það höfum við sýnt í verki. Við erum með augun á boltanum. Við erum tilbúin að hlusta, við erum að taka ákvarðanir. Við erum að styðja við ykkur af því að við höfum tröllatrú á íslenskri ferðaþjónustu til framtíðar og ég efast ekki um það í hálfa mínútu að framtíð ferðaþjónustu á Íslandi er mjög björt.

Við erum með skýran stefnuramma til ársins 2030 sem við unnum einmitt með greininni á sveitarstjórnarstiginu og það er ákveðinn gæðastimpill á þann stefnuramma að hann stendur í raun óhaggaður eftir Covid. Við erum með skýra sýn um að við ætlum að vera leiðandi í sjálfbærri þróun. Við ætlum að horfa áfram og það er t.d. verkefni sem ég held að verði áskorun þegar við förum aftur að taka á móti fólki, að við erum að horfa á gæði umfram magn. Við erum ekki að horfa á fjölda ferðamanna heldur hvað ferðamaðurinn skilur eftir sig og hvaða verðmæti verða til í greininni og hver arðsemin er innan hennar. Það eru ýmsar áskoranir fram undan. Við horfum fram á fjárhagslega endurskipulagningu ýmissa fyrirtækja en skilaboðin eru: Við stöndum með ykkur. Ég hef tröllatrú á þeim og þau hafa það líka. Tímarnir verða ekki sársaukalausir eða auðveldir en ég hef mikla trú á framtíð þessarar greinar (Forseti hringir.) og um leið og við getum dregið úr óvissu og aukið fyrirsjáanleika þá gerum við það. (Forseti hringir.) Núna er staðan skýr varðandi næstu skref, hvort hægt er að flýta því kemur í ljós og ég vona það.