151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

fjarskipti og þjóðaröryggi.

[10:40]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á því að nota tækifærið og þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Hún sýnir mér að þessi umræða er að þróast í rétta átt. Ég hef notað sama orðalag og hv. þingmaður, að við erum svolítið bláeyg, reyndar úr þessum stól hér fyrir nokkru síðan. Ég hef lagt á það áherslu alls staðar, bæði hér í þingi, í ríkisstjórn, í þjóðaröryggisráði, að við tökum netöryggismálin föstum tökum og lítum til þeirra landa sem hv. þingmaður m.a. vísaði til. Upptalningin hefði getað verið lengri, við gætum nefnt bara vini okkar Svía, svo dæmi sé tekið, en í rauninni eru nokkurn veginn öll þau lönd sem við berum okkur saman við að nálgast þetta mál með sama hætti, þ.e. að líta á það líka sem þjóðaröryggismál sem það svo sannarlega er.

Það hefur sem betur fer margt verið gert og m.a. er í þinginu frumvarp frá hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra sem hefur þessi mál á sinni könnu, þó svo að það tengist auðvitað fleiri ráðuneytum. Við erum að vinna saman í sérstökum vinnuhópi sem hæstv. ráðherra skipaði í lok júlí 2020 um örugga uppbyggingu 5G-kerfisins. Í honum sitja fulltrúar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Einnig hef ég sett af stað starfshóp um ljósleiðaramálefni, útboð ljósleiðaraþráðar Atlantshafsbandalagsins og tengd málefni, m.a. með tilliti til þjóðaröryggis og þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands. Þá situr fulltrúi utanríkisráðuneytis í starfshópi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem ég nefndi, um öryggi 5G-kerfisins þannig að við erum að vinna þetta með sama hætti og nágrannaríkin. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt, og þess vegna fagna ég aftur fyrirspurn hv. þingmanns, (Forseti hringir.) að við ræðum þetta og allir séu meðvitaðir um það að þetta er líka þjóðaröryggismál.