151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þar sem við erum stödd í umræðunni hafa nokkur atriði komið fram sem ég vildi aðeins bregðast við. Í fyrsta lagi er það með vissum hætti rétt hjá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að ef menn vilja nota einhverjar aðrar aðferðir við að breyta stjórnarskrá en stjórnarskráin sjálf gerir ráð fyrir, verða menn að breyta því ákvæði áður en farið er út í hitt. Þetta á að vera sjálfgefið og á að vera sjálfsagt og augljóst. En umræðan um þessi efni hefur farið út af sporinu oft og tíðum þegar menn hafa talið að það væri rétt og skylt að breyta stjórnarskránni með einhverjum öðrum hætti en stjórnskipunin gerir ráð fyrir.

Annað atriði sem vakti athygli mína var yfirlýsing hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson um að hún vildi taka tillögur stjórnlagaráðs og samþykkja þær allar, ekki bara þau atriði sem hún hefur sýnt sérstakan áhuga, heldur allar þær breytingar sem lágu fyrir í tillögum stjórnlagaráðs. Þetta er nýtt frá Viðreisn, eftir því sem ég best veit, og er mjög áhugaverð nálgun, sérstaklega þegar horft er til þess að þau atriði sem Viðreisn hefur fram að þessu lagt áherslu á hafa verið tvö eða þrjú, en í tillögum stjórnlagaráðs er verið að leggja til breytingar á öllum 80 ákvæðum núverandi stjórnarskrár og 35 nýjar tillögur að auki og fjölmargar þeirra fela í sér verulegar breytingar. Viðreisn hefur auðvitað rétt til þess að marka sína stefnu með þeim hætti, en það eru nokkur tíðindi.

Það þriðja sem ég vildi nefna á þessum stað í umræðunni er að það er áhugavert að heyra viðbrögð Samfylkingar og Pírata, en það verður að hafa í huga að sérstaklega þessir flokkar (Forseti hringir.) hafa verið tregir til samkomulags um annað fram að þessu en að tillögur stjórnlagaráðs (Forseti hringir.) væru teknar og lögfestar í heilu lagi. Þannig að það er svolítið nýmæli. (Gripið fram í: Það er ekki alveg rétt.)