151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagðist hafa farið yfir tillögur verkefnisstjórnar frá árinu 2016. Mig langar þess vegna að spyrja hvort framlagning á óbreyttum tillögum Sigrúnar Magnúsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, sé gæðastimpill hæstv. ráðherra á því ferli sem viðhaft var á því kjörtímabili, sem ráðherrann hlýtur að vita að var meingallað. Beðið var í á að giska eitt ár með að setja ferlið af stað vegna þess að fyrri umhverfisráðherra þeirrar ríkisstjórnar vildi ekki setja það af stað. Síðan fóru faghóparnir seint af stað, höfðu lítinn tíma, þannig að ferlið sem átti að hafa fjögur ár til að vinna fékk um eitt og hálft til tvö ár. Verkefnisstjórn sendi tillögur sínar í 12 vikna samráðsferli gagnvart almenningi og skilaði tillögum sínum til ráðherra 26. ágúst 2016. Þann 1. september var sá ráðherra búinn að fara yfir alla mögulega fleti á þessu máli og skilaði tillögunni til þingsins. Það sér hver maður að þarna var ekki gætt almannahagsmuna.

Telur ráðherra, eftir að hafa farið yfir tillögur verkefnisstjórnar og allt ferlið, að andi laganna hafi verið virtur árið 2016 og þar með í þeirri framlagningu sem hann stendur hér fyrir? Telur ráðherra að andi Árósasamningsins hafi verið virtur, að önnur stoð Árósasamningsins um þátttöku almennings hafi verið virt, með því að umsagnarferli almennings (Forseti hringir.) fékk rétt svo örskotsstund að svífa fram hjá augum ráðherrans á þeim tíma?