151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðherrann segir að margt hafi lærst, sérstaklega varðandi efnahagslegu og samfélagslegu þættina, hvernig eigi að meta þá, en þeir tveir faghópar skiluðu engu í 3. verkefnisstjórn rammaáætlunar sökum tímaskorts. Ja, margt hefur lærst, en af hverju er ekkert lagað? Af hverju er þetta lagt fram eftir það brogaða ferli sem ráðherra segir að hafi þurft að læra af? Hér er gölluð tillaga. Hún var gölluð 2016. Það var tækifæri til að laga hana á þeim fjórum árum sem liðin eru síðan. Af hverju var það tækifæri ekki nýtt?

Og talandi um tímann sem er liðinn, margt hefur breyst síðan Sigrún Magnúsdóttir hunsaði samráð við almenning og lagði þessa tillögu fram. Margt hefur breyst varðandi náttúruvernd, ferðaþjónustu og umgengni um landið. Telur ráðherra, t.d. varðandi allt sem lærst hefur um mat á samfélagsáhrifum virkjana, að honum sé stætt á því að leggja til að virkja alla Þjórsá, eins og hann gerir hér, þar sem samfélagsþættirnir eru akkúrat það sem aldrei var lagt almennilegt mat á?

Hvað finnst ráðherranum um að leggja til að virkja Hvalá, sem ég man ekki betur en að flokkssystkin ráðherrans hafi fagnað að væri hætt við að virkja á síðasta ári? Og hvað með hálendið? Mér þykir hugtakið „jaðarsvæði“ ekki lýsa nægjanlega umhverfi þeirra 15 virkjunarkosta sem ráðherrann býður upp á að verði ráðist í á jaðarsvæði hálendisþjóðgarðs. Jú, vissulega eru stöku svæði í jaðri, við útmörk þjóðgarðsins, en svæði eins og Hágöngur og Skrokkalda eru í hjarta hálendisins. (Forseti hringir.)

Í ljósi þess að búið er að ákveða og hér liggur fyrir frumvarp um hálendisþjóðgarð, hefði ekki mátt endurskoða þessa dellu um 15 virkjanir á hálendinu?