151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:10]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins svara spurningunni um hvers vegna ég ákvað að gera ekki breytingar á þessari áætlun áður en ég lagði hana fram. Ég fór vandlega yfir það hvort ástæða væri til að stækka biðflokkinn og sérstaklega þá á kostnað orkunýtingarflokks, af því ég er nú bara þeim megin í lífinu. En niðurstaða mín var einfaldlega sú að ég tel mikilvægt að þingið fái þessa áætlun inn með þeim hætti sem verkefnisstjórnin skilaði henni. Mögulegar breytingar sem gerðar yrðu á þinginu, t.d. ef alþingismenn væru sammála um að stækka biðflokka eða eitthvað slíkt, væru eitthvað sem gera ætti hér þar sem hér er samankominn sá hópur fólks sem kjörinn hefur verið af þjóðinni til að taka ákvarðanir sem eru jafn stórar og þessar. Þannig að ég tel skynsamlegt að leggja fram það faglega mat sem þarna kom fram.

Ég verð aðeins að svara því sem hv. þingmaður nefnir um virkjanir á hálendinu. Ef þingmaðurinn les frumvarpið þá hlýtur honum að vera ljóst að þarna er verið að teikna upp kerfi sem tekst á við það og dregur línu í sandinn þegar kemur að orkuöflun á hálendinu. Þar segir: Við ætlum ekki að taka fleiri hugmyndir til skoðunar en þær sem þegar hafa komið fram. Og þær sem þegar hafa komið fram munu lúta ákveðnum leikreglum, m.a. að við beinum þá mögulegum nýjum virkjunum inn á svæði sem þegar eru röskuð. Ég hef margoft lýst því yfir að væri ég einráður myndi ég ekki vilja sjá fleiri virkjanir inni á hálendi Íslands. En ég mæti hér sjónarmiðum gríðarlega margra í því frumvarpi sem ég mælti hér fyrir fyrir jólin um hálendisþjóðgarð. Ég held að það sé farsælt að gera það með þeim hætti sem þar var gert, að teikna upp hvernig ferlið fram undan verður (Forseti hringir.) og með hvaða hætti við getum búist við að þessi mál þróist áfram inni á hálendi Íslands, sem er jú, svo ég minni á það, ein okkar dýrmætasta náttúruperla.