151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:12]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er spennandi umræða og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem snýr að því að við erum með stefnu um kolefnishlutleysi í landinu 2040. Við höfum sett okkur orkustefnu til 2050, við erum að ræða rammaáætlun og við erum að ræða hálendisþjóðgarð. Eitt af því sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um snýr að vindorku og hvernig hæstv. ráðherra hugsar hana inn í heildarmengið þegar þetta allt er tengt saman. Í umræðu um orkustefnuna ræddum við mikið um meginflutningskerfi raforku. Áherslur mínar þar voru vindorkan og samkeppnishæfni Íslands. Hvert vill hæstv. ráðherra fara varðandi nýtingu á vindorku? Í tengslum við rammaáætlun, sem hér er lögð fram, er einn vindorkukostur í nýtingarflokki og einn í biðflokki. Síðan hafa margar tillögur verið kynntar um framtíðarvinnu. En fyrst og fremst langar mig að fá þetta fram varðandi vindorkuna. Við höfum líka séð að ef ekki á að leyfa vindorkuver eða framleiðslu raforku með vindorku á jaðarsvæðum hálendisþjóðgarðs fer að verða fátt um fína drætti þegar kemur að því að nýta þessa kosti sem gætu hámarkað raforkukerfi landsins og bætt til muna nýtingu á heildarkerfinu með uppbyggðu, sterkara flutningskerfi raforku. Þar kæmi þá vindorkan með. Þetta er það sem ég vil byrja á að spyrja um.