151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:31]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er alltaf áhugavert að hlusta á hv. þingmann ræða þessi mál því að hann er, eins og hann fór ágætlega yfir, hokinn af reynslu, hefur verið við umræður um mál tengd virkjunum eða rammaáætlun býsna lengi og þekkir söguna. Það er því af ýmsu að taka í samtölum við hv. þingmann um þessi mál. En ég staldra við eitt úr ræðu hv. þingmanns, þá býsna alvarlegu ásökun að hæstv. ráðherra sé að brjóta lög með því að leggja þetta mál fram. Ég er orðinn svo gamall sem á grönum má sjá og minni mitt í mörgu farið að bregðast, en ef mér skjöplast ekki þá var hv. þingmaður ráðherra í síðustu ríkisstjórn sem lagði nákvæmlega þetta mál fram. Mér finnst að hv. þingmaður skuldi Alþingi yfirlýsingu um að hann hafi sjálfur tekið þátt í að brjóta lög í þeirri ríkisstjórn með því að leggja þetta mál fram, ef það er skoðun hv. þingmanns. Eða skiptir máli hvort hv. þingmaður situr í ríkisstjórninni sem leggur málið fram eða er óbreyttur þingmaður? Það er ekki eitthvað sem maður hendir út í loftið að tala um að annað fólk stundi lögbrot. Mér finnst að hv. þingmaður þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum og þeirrar ríkisstjórnar sem hann sat í áður því að hún hlýtur þá líka að hafa framið lögbrot.