151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég geri mikinn greinarmun á ólíkum skoðunum varðandi mikilvægi virkjana og þörfina á virkjunum og orkunýtingu, orkuskorti eða hvað það er og því að saka fólk um lögbrot. Ég minni á, forseti, að þetta mál er lagt fram í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Nær þessi ásökun hv. þingmanns líka yfir á þann ráðherra? Gerði hv. þingmaður, fyrst hann hefur alltaf haldið þessu fram, fyrirvara við málið í ríkisstjórninni 2016–2017? Bókaði hann það í ríkisstjórn að hann teldi að hann væri að taka þátt í lögbroti þegar málið var lagt fram?

Forseti. Ræðum efnisþætti málsins, skiptumst á skoðunum um hvað við teljum rétt og rangt í virkjanamálum, í verndarmálum, í því hvernig við eigum að höndla með niðurstöðu verkefnisáætlunar, því ferli sem við höfum komið á fót. Komum á framfæri því sem við teljum að sé ábótavant og þurfi að skoða betur ef eitthvað er þannig. Fáum afstöðu ráðuneytanna beggja sem að þessu máli standa um hvort þetta sé ekki allt eftir laganna bókstaf. En reynum að halda okkur á þeim stað en ekki vera að stíga svo langt í opinberri umræðu sem ásakanir um lögbrot eru.