151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég stíg bara svo langt sem mér sýnist í þeim efnum og fer ekkert ofan af því. Ég hef allan tímann — við alla þessa ráðherra, við alla umræðu í þessu máli sem ég hef tekið þátt í á þessum árum, þegar ég sat í ríkisstjórn með ráðherra sem lagði þetta fram, og nú þegar hæstv. iðnaðarráðherra er í mínum flokki, en þetta er lagt fram í samráði við hana, við hæstv. umhverfisráðherra, í opinberri umfjöllun hér í þinginu og í fjölmiðlum — haldið þessu til haga, þessu mikilvæga atriði.

Það verður ansi fróðlegt, virðulegur forseti, að taka umræðuna við hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé, sem situr með mér í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins, og þarf að leggja mat á þetta. Kannski við förum bara í það að kalla hv. þingmenn úr nefndinni til okkar sem gesti við umfjöllun á þessu máli til að fara aðeins yfir það hver hugsunin var, hver vilji löggjafans var, þegar við náðum þverpólitískri sátt um þetta mikilvæga mál þvert yfir alla flokka sem þá sátu á þingi — hver hugsunin var og hvort þeir telji að sú framkvæmd sem hefur verið á þessum málum síðan þá sé þinginu til sóma og í anda þeirra laga sem þarna voru samþykkt. Um það snýst auðvitað meginmálið.

Þetta mikilvæga mál er orðið að bitbeini og það er þjóðhagslega stórskaðlegt að svo skuli hafa farið, að við skulum ekki hafa náð samstöðu um það þvert á flokka að vinna þetta áfram þar sem við tökum tillit til allra þessara mikilvægu þátta (Forseti hringir.) sem snúa að umhverfismálum og náttúruvernd, ferðaþjónustu og hinum ýmsu atvinnugreinum og nýtingu þessara auðlinda til uppbyggingar velferðarsamfélags á Íslandi.