151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[16:11]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér fannst heldur djúpt á svörum við mínum beinu spurningum í svari hv. þingmanns. Við erum öll sammála því að það verður að vera gott samráð við sveitarfélög, auðvitað, en um það var ég ekki að spyrja. Ég var að spyrja um þau býsna afdráttarlausu orð hv. þingmanns að með rammaáætlun væri verið að taka skipulagsvaldið frá sveitarfélögunum og færa það suður til Reykjavíkur. Ég var að spyrja hv. þingmann hvort hann teldi hið sama eiga við um kerfisáætlun af því að í henni er skýrt að hún er ofar áætlunum sveitarfélaga, að sveitarfélögunum beri að laga sínar áætlanir að kerfisáætlun.

Ástæðan fyrir því að ég spyr, forseti, er umræðan, ekki síst síðustu daga, vikur og mánuði, þar sem mér hefur þótt gæta tvískinnungs í málflutningi riddara skipulagsvaldsins heima í héraði. Þeir geta ekki verið samkvæmir sjálfum sér ef þeir berjast fyrir því að skipulagsvald sveitarfélaganna sé virt þegar kemur að rammaáætlun eða þjóðgarði en ekki virt þegar kemur að kerfisáætlun.

Í mínum huga, forseti, er ekki hægt annað, ef þetta sama fólk vill skipulagsvaldið heim í hérað þegar kemur að virkjunum eða þjóðgarði, en að vilja það líka heim í hérað þegar kemur að línulögnum, því að annars er fólk orðið í mótsögn við sig sjálft. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Telur hann að svo sé? Telur hann að skipulagsvald sveitarfélaga, þegar kemur að línulögnum, sé þá líka ofar kerfisáætlun eins og hann telur að skipulagsvald þeirra sé ofar þegar kemur að rammaáætlun?