151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[16:34]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég hef verið að hlusta á umræðuna um þetta mál, tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, frá umhverfis- og auðlindaráðherra. Menn hafa gert málinu ansi góð skil og ég ætla ekki að bæta miklu við um efnistök málsins nema kannski helst að segja að það sem fyrir mér vakir í sambandi við raforkumál og raforkuframleiðslu eru ekki nein ný tíðindi, ég hef talað fyrir því að við ættum alltaf inni þá kosti að geta átt næga raforku inn í framtíðina. Erfitt er að segja til um hve mikil þörfin verður. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Þess vegna þurfum við að geta gert ráð fyrir því að hafa aðgang að virkjunarkostum og/eða þeim aðferðum til að framleiða rafmagn sem til þarf.

Mig langaði að koma því að að þegar ég var að hlusta á þessa umræðu áðan fékk ég það sama á tilfinninguna og þegar við vorum að ræða um hálendisþjóðgarð fyrir nokkru síðan. Hér komu stjórnarliðar úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki með, ég segi kannski ekki bunka, en með mörg blöð af fyrirvörum um málið sem er verið að flytja. Þetta er annað málið sem umhverfisráðherra flytur þar sem stjórnarliðar úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki koma með fyrirvara. Meira að segja talaði hv. þm. Jón Gunnarsson um lögbrot, hvorki meira né minna, stjórnarliði talar um lögbrot í þessu máli hæstv. umhverfisráðherra. Maður spyr sig: Hvernig eru mál unnin í þessari ríkisstjórn? Hvernig ætlar ráðherrann að koma málum í gegn ef þetta er ástandið í ríkisstjórninni? Stjórnarliðar koma hér upp hver á fætur öðrum og tala um fyrirvara og jafnvel lögbrot. Er einhver von til þess að svona mál fái lyktir og verði leidd í jörð í rólegheitum eða hvernig ganga kaupin á eyrinni fyrir sig á í ríkisstjórninni? Ég átta mig ekki á því og mig rekur í rogastans.

Í gær mælti sjávarútvegsráðherra fyrir tveimur ágætismálum sem hafa bæði kosti og galla. Þá komu þingmenn úr stjórnarliðinu, úr hinum flokkunum, frá Vinstri grænum og Framsóknarflokknum, með fyrirvara um bæði málin þannig að ekki var nú kærleikurinn mikill í þeim málatilbúnaði, ekki frekar en í þessu máli eða um hálendisþjóðgarðinn. Það getur varla verið til góðrar fyrirmyndar, alls ekki. Ég varð nú bara að koma hingað upp til að láta þessar hugsanir mínar um munn fara, svo það sé á hreinu að ég hef áhyggjur af þessu, ég verð að segja það, eins og einhver góður maður sagði forðum.

Í fréttum á dögunum var skoðanakönnun þar sem kom fram að ekki nema 31% þjóðarinnar væri fylgjandi hálendisþjóðgarði. Þykja mér það tíðindi vegna þess að menn töldu að hér væri bara einhver örlítill grenjandi minni hluti á móti hálendisþjóðgarði. En eftir þessu að dæma er sá grenjandi minni hluti rétt við 50% eða meira og þykir mér það ansi stór minni hluti.

Ég veit ekki hvort ég á að hafa frekari orð um þetta en margt kemur upp í hugann. Hér var minnst á að við yrðum að framleiða græna orku. Ég veit ekki um neina orku grænni en vatnsaflsvirkjanir. Það er sú orkulind sem mér finnst hvað grænust. Auðvitað má kalla raforku framleidda með hita græna, en hún er ekki í mínum huga eins græn og vatnsaflsvirkjanir. Vindorka er framtíðarkostur en hún getur aldrei orðið öðruvísi en að hún tengist vatnsorkunni. Vatnsorkan verður alltaf hryggjarstykkið í raforkuframleiðslu. Við skulum hafa það í huga þegar við erum með framtíðarvangaveltur um raforkukosti að vatnsorkan verður hryggjarstykkið í raforkuframleiðslu. Það er ekkert flóknara en það. Ætla ég þá ekki að hafa mál mitt lengra að sinni.