151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[16:41]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu umhverfis- og auðlindaráðherra um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ég vil byrja á því að gagnrýna það að tillagan sé lögð fram jafn seint og raun ber vitni. Þetta er mál sem að mati þeirrar sem hér stendur hefði átt að leggja fram strax á fyrsta þingi kjörtímabilsins, enda er mikill hluti upplýsinganna sem fram koma úreltur. Við vitum til að mynda mun meira nú um Hvalárvirkjun en þegar verkefnisstjórnin hafði hana til umfjöllunar og um gildi og mikilvægi svæðisins sem þar er undir. Eins vil ég gagnrýna hvernig Hvalárvirkjun lenti í nýtingarflokki eftir rammaáætlun 2 þar sem ekki var notað faglegt mat heldur atkvæðagreiðsla. Þá vantaði mikið af gögnum sem hefði átt að setja hana í biðflokk. Eins er Skrokkölduvirkjun í allt öðru ljósi nú þegar stofna á þjóðgarð á miðhálendinu. Hún kemur eins og rýtingur inn á mitt hálendið og ætti því að sjálfsögðu að fara í biðflokk. Þetta eru hlutir sem eru meðal nýrra upplýsinga sem fram hafa komið.

Forseti. Ekki hafa komið fram nýjar upplýsingar sem gefa ástæðu til þess að færa kosti úr verndarflokki í biðflokk nema síður sé, þar sem enginn orkuskortur er á landinu. Það sama gildir um Hágöngur og um Skrokköldu þó að Hágönguvirkjun sé a.m.k. í biðflokki. Það ber að nefna að þó að ekki sé orkuskortur, þó að næg orka sé í landinu, þá þarf að sjálfsögðu að huga að betri dreifingu orkunnar og tryggja afhendingaröryggi hennar. Eins stingur í augu hversu margir jarðhitakostir í nýtingarflokki eru á Reykjanesi. Þeir vinna gegn hver öðrum og þá er mikilvægi Reykjaness sem útivistarsvæðis meiri hluta landsmanna sem og erlendra ferðamanna mun skýrara nú en fyrir til að mynda fimm árum.

Þó vil ég taka það fram, virðulegi forseti, að ég styð að sjálfsögðu þá aðferðafræði sem rammaáætlun byggist á en hún krefst þess líka að Alþingi sinni hlutverki sínu og leggi fram áætlunina um leið og hún er tilbúin. Að lokum vil ég leggja áherslu á mikilvægi þess að Árósasamningurinn sé virtur í allri þessari vinnu, samningur sem kveður á um aukna þátttöku almennings í ákvarðanatöku í umhverfismálum.