151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Já, það er kannski knappur tími til stefnu, en vissulega tók þetta tiltekna ákvæði töluverðum breytingum frá tillögum stjórnlagaráðs yfir í tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Sú tillaga sem ég legg fram er með öðru sniði. Þar er t.d. ekki reynt að ráðast í upptalningu auðlinda. Ég tel það einmitt til bóta að það sé opið hvaða auðlindir eru undir, því að við sjáum það ekki endilega fyrir nú hverjar verða auðlindir framtíðarinnar, svo dæmi sé tekið. Það hangir á því hvernig þær eru nýttar til verðmætasköpunar, ekki satt? Byggi ég þá á grundvellinum? Ég veit það ekki. Þessar auðlindir verða ekki afhentar varanlega. Það stendur mjög skýrt í tillögu minni og er skýrt í greinargerð að það þýði að annaðhvort sé það þá tímabundið eða uppsegjanlegt. Hv. þingmaður segir: Þetta á bara að vera tímabundið, ekki uppsegjanlegt. Það er efnisleg umræða sem við þurfum að eiga þegar við ræðum þetta frumvarp. En það kunna hins vegar að vera (Forseti hringir.) þung rök fyrir því að það sé með hvorum tveggja hætti, sem ég næ ekki að ræða hér sökum tímaskorts. En ég þakka hv. þingmanni fyrir.