151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

viðbrögð við Covid og vinnumarkaðurinn.

[14:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vísaði í fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar, fyrsta fjáraukann. Þar var staðan svona. Það var síðan áhersla stjórnarandstöðunnar í kjölfarið að veita aukið fjármagn í nýsköpun, sem þingið tók undir en ekki eins mikið og stjórnarandstaðan vildi. Það var þingið sem bætti í nýsköpunina í fyrsta fjáraukanum, ekki ríkisstjórnin.

Bólusetning fyrr en við áttum von á? Við fengum aldrei plan í hendurnar um það hvernig hún myndi líta út. Hvernig getum við þá sagt að það hafi gerst fyrr en við áttum von á? Aukinn fyrirsjáanleiki á landamærunum? Það var engin fyrirsjáanleiki á landamærunum og er ekki enn. Við vitum ekki enn þá hvernig næstu mánuðir í þessum faraldri munu verða. Eru tveir, þrír mánuðir eftir af takmörkunum? Ekki hugmynd. Vonast er til þess að klárað verði að bólusetja og ná hjarðónæmi fyrir fyrri helming ársins. Tekst það? Við höfum engin plön um hvernig það gæti tekist. Það er vandinn sem leiðir til þess að ég spyr: Hvað næst? (Forseti hringir.) Hvar er planið sem við fáum í hendurnar sem segir okkur það?