151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er sammála því að við erum á töluvert betri stað og því ber að fagna. Það bárust fregnir um að ekki væri verið að halda eftir bóluefni fyrir seinni bólusetningu heldur frekar að reyna að klára fyrri bólusetningu og bíða svo eftir nýjum skömmtum. Ég vil fá svar hæstv. ráðherra við því hvort þetta sé rétt. Ef svo er tel ég það mjög óvarlegt því að dráttur hefur verið á afhendingu og þetta getur auðvitað valdið miklum vandræðum. Þó að við viljum auðvitað bólusetja fleiri hratt þá viljum við líka bólusetja fleiri rétt. Ég vil gjarnan fá skýr svör varðandi þetta.

Jú, við munum halda áfram að tryggja okkar einstaklingsbundnu sóttvarnir, en ég er að spyrja hæstv. ráðherra út í þær takmarkanir sem eru fyrir rekstraraðila, t.d. öldurhús, veitingastaði, ferðaþjónustuaðila og þess háttar. Þó að við höldum áfram að spritta og vera með grímur og þess háttar þá hljóta þessir rekstraraðilar, sem veita ýmiss konar þjónustu, að bíða mjög spenntir eftir því hvenær stjórnvöld, og þau hljóta að vera byrjuð að undirbúa það, sjá fyrir sér við hvaða mark fer að rofa til eða hvort það á bara að halda ýtrustu sóttvörnum áfram þrátt fyrir að helmingur þjóðarinnar verði orðinn bólusettur.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra sömu spurningar og ég spurði ráðuneytið fyrir nokkru, þ.e. um forgangsröðun þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna félagslegra og efnahagslegra aðstæðna. Það eru heimilislausir einstaklingar og fleiri sem eru í þess háttar stöðu. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að við þurfum að tryggja bólusetningu þeirra sem allra fyrst. Þetta er lítill hópur, sem betur fer. (Forseti hringir.) Það hefur ekki breyst á góðri heimasíðu bóluefni.is, röðun þeirra, þeir eru enn í níunda hópnum. Ég vil spyrja um afdrif þeirra.