151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:13]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra munnlega skýrslu um öflun og dreifingu bóluefnis og finnst skýrslan hafa verið mjög upplýsandi um stöðu mála. Með hækkandi sól ár hvert fyllumst við aukinni bjartsýni. Það er í eðli okkar Íslendinga. Og það er ekki síst tilefni til þess núna þegar við sjáum, samhliða hækkandi sól, fram á að hafa betur í baráttunni við kórónuveiruna þannig að við getum hafið viðspyrnuna af fullum krafti á öllum sviðum samfélagsins. Síðasta ár höfum við upplifað þá tíma sem ekkert okkar bjóst við að upplifa þrátt fyrir að hafa einhvers staðar haft vitneskju um að við gætum átt von á heimsfaraldri af einhverju tagi. En við höfum líka upplifað einstaka tíma í samvinnu alþjóðavísindasamfélagsins og stjórnmálanna um allan heim þar sem sett var skýrt markmið um að einhenda sér í þróun bóluefna og farið í samvinnu og samninga um rannsóknir og þróun.

Við Íslendingar stigum inn í þessa samvinnu með öðrum Evrópulöndum þrátt fyrir að bóluefnakaup okkar hafi lítið vægi í heildarmyndinni og hlutur okkar í kaupum á bóluefnum ráði seint úrslitum með öllum þeim kostnaði sem felst í þróun, prófun og framleiðslu bóluefna. Það er svo afrek að vera komin með bóluefni og það nokkrar tegundir frá nokkrum framleiðendum jafn hratt og raun ber vitni. Það tókst með samvinnu vísinda og þjóða.

Eins og hæstv. ráðherra fór yfir hafa Íslendingar gert samninga um afhendingu á bóluefnum fyrir alla landsmenn. Erum við nú í 7. sæti á heimsvísu og stefnir í að þorri landsmanna verði bólusettur fyrir mitt ár.

Þegar lagt var af stað í leiðangurinn í leit að bóluefni í vor var ómögulegt að sjá fyrir hver yrði fyrstur til að leysa gátuna eða hvaða bóluefni hentaði mismunandi hópum. Því var ómögulegt að veðja á einn hest í samningum. En nú er tryggt að við fáum bóluefni í sama hlutfalli og aðrar þjóðir í því samstarfi sem við erum. Það er í raun magnað. Það er óskandi að í framhaldi af þessu nýti alþjóðasamfélagið reynsluna af þróun Covid-bóluefna í baráttunni við aðra sjúkdóma, hvort sem þeir eru af völdum veira, baktería, sníkjudýra eða lífsstíls. Við Íslendingar eigum að beita okkur fyrir því og óska ég þess að heilbrigðisráðherra komi inn á það í andsvari sínu.

Íslendingar eru fáir en þrátt fyrir það og einmitt þess vegna hafa verið uppi raddir um að skynsamlegt gæti verið að bólusetja alla þjóðina í einu og að mörgu leyti er auðvelt að tala fyrir þeirri nálgun. En á hinn bóginn eru ýmis ríki í miklu meiri vanda, gríðarlegum vanda við að hemja kórónuveiruna á meðan okkur hefur gengið vel. Því mætti færa rök fyrir því að önnur ríki ættu að ganga fyrir.

Auðvitað er viðspyrna mikilvæg og framvinda og hraði bólusetninga hefur áhrif á viðspyrnuna. En viðspyrnan hér á landi ræðst ekki eingöngu af hjarðónæmi íslensku þjóðarinnar heldur af stöðunni í löndunum í kringum okkur. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort misvægi í dreifingu bóluefna milli þjóða muni ekki geta dregið heimsfaraldurinn á langinn og þannig geti verið uppi bæði siðferðisleg rök og vísindaleg rök fyrir því að bólusetja þjóðir í svipuðum hlutföllum samtímis.