151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir svörin. Það er kannski smekksatriði hversu margir af hálfu stjórnvalda eigi að vera að tjá sig um þessi mál. Stóra málið er auðvitað að stjórnvöld, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi, hvort sem það eru fulltrúar heilbrigðisráðuneytis eða aðrir, tali einni röddu.

Í ljósi þess að verkefni ársins 2021 er enn hið sama og ársins 2020, að veita fólki og fyrirtækjum og ákveðnum greinum svigrúm til að lifa af efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins þannig að viðspyrnan verði bæði möguleg og kraftmeiri þegar hjólin fara að snúast að nýju, langar mig að ítreka það sem ég nefndi áðan. Ég tel að það sé raunveruleg breyta um árangur í þeim efnum að rödd stjórnvalda sé skýr. Við vitum það öll að ekkert mál er sem stendur mikilvægara fyrir íslenskt samfélag en að almenn bólusetning hefjist og sem fyrst. Næstmestu skiptir svo einhver vissa þar um, vitaskuld í því samhengi að óvissan er fyrir hendi og það er að takmörkuðu leyti hægt að eiga við hana. Enginn hér ætlast til neinna töfralausna en við vitum það auðvitað líka að árangurinn í heilbrigðismálum er einfaldlega forsenda árangurs í efnahagsmálum og forsenda endurreisnarinnar er bólusetningin. Óvissan í þessum efnum er því hættuleg og vond fyrir okkur öll. Þess vegna skiptir miklu að skilaboðin séu skýr og afdráttarlaus. En spurning mín varðar einfaldlega öflun bóluefnis núna. Sú umræða var líka virk og vakandi í samfélaginu þannig að ég myndi vilja spyrja hæstv. ráðherra að því hverjir það eru sem vinna í umboði ríkisstjórnarinnar að öflun efnis. Hvaða aðferðafræði er verið að vinna eftir þar eða hugmyndafræði og (Forseti hringir.) er hægt að upplýsa almenning að einhverju leyti betur um þetta verklag þannig að myndin verði skýrari?