151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem ég held að hafi dýpkað dálítið skilning okkar sem hér störfum og vonandi sem flestra úti í samfélaginu á því hver staða mála er varðandi bólusetningar gegn Covid-19. Mig langar í rauninni bara að spyrja út í einn þátt, vegna þess að ég held að flest hafi komið fram í umræðunni fyrr í dag. Mig langar að spyrja varðandi einn hóp á forgangslista sem er sá síðasti, það er hópur níu. Það er hópurinn sem er á undan hópi tíu, sem er varla hægt að kalla forgangshópa þegar það er fólkið sem ekki býr við þær heilsufars- eða starfsaðstæður að raðast í forgang heldur er það fólkið sem óskar bólusetningar gegn Covid-19. Í hópi níu eru viðkvæmir einstaklingar. Ég stóð í þeirri trú eftir að heilbrigðisráðuneytið var á fundi velferðarnefndar hér fyrr í vetur að það væri í vinnslu að færa þennan hóp framar í keðjuna þótt ekki væri nema upp á innra samræmi. Í þessum hópi eru væntanlega t.d. fangar sem ekki ráða eigin búsetu. Fangaverðir eru í fjórða forgangshópi. Væri ekki eðlilegt að fólk sem deilir því rými væri á svipuðum stað í keðjunni? Ekki kemur fram hvaða einstaklingar í viðkvæmri stöðu vegna félagslegra og efnahagslegra aðstæðna eru í forgangshópi níu, en væntanlega er þetta almennt fólk sem ekki stýrir eigin búsetu af ýmsum ástæðum. Við erum mögulega að tala um fanga, fólk sem er á lokuðum deildum heilbrigðisstofnana, hælisleitendur, heimilislaust fólk, notendur þjónustu Frú Ragnheiðar. Er þetta ekki allt fólk sem við viljum færa framar í keðjuna? Ráðherra sagði fyrr í dag að það væri á hendi sóttvarnalæknis að ákveða forgangsröðunina, en henni getur hann breytt ef málefnalegar ástæður eru fyrir því og henni getur hann breytt í samstarfi við heilbrigðisráðherra. Þannig að ég vil spyrja: Telur ráðherra ekki eðlilegt að endurskoða röðunina á einstaklingunum í hópi níu þannig að þessi viðkvæmi og litli hópur sé ekki bókstaflega á eftir öllum öðrum í forgangi?