151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég veit að hann er vel að sér í þessum efnum og hann er vel lesinn og hefur kynnt sér margar hagfræðikenningar, veit ég, og alltaf áhugavert að ræða þessi mál við hv. þingmann. Það er svo sannarlega þörf á gagnsæi almennt í hagkerfinu, t.d. í fjárlagavinnu og fjárveitingum. Við höfum tekið upp svokallaðar skýrslur ráðuneyta sem dæmi til að reyna að fá meira gagnsæi á það hvernig er verið að nýta fjárveitingarnar, í hvað peningarnir fara. Það er margt sem þarf að laga í þeim efnum. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu samlíkingu, þ.e. þegar um er að ræða ofmat á vísitölunni, sem hefur gríðarleg fjárhagsleg áhrif, gríðarleg, og það er ótrúlega ósanngjarnt að þetta ofmat skuli allt bitna á lántakendum. Maður spyr, eins og ég gerði í minni ræðu: Hvers vegna hefur það ekki verið skoðað meira ofan í kjölinn? Upphæðirnar eru gríðarlegar sem þarna spila inn í og þá er einmitt gaman að spegla þetta svolítið yfir á hagkerfið almennt, eins og hv. þingmaður kom inn á og er mjög áhugaverð hugmynd sem væri hægt að vinna með. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að það sé mikil sóun í ríkiskerfinu en því miður hef ég ekki séð Sjálfstæðismenn koma með sérstakar tillögur til þess að vinna gegn þeirri sóun. Það er víða hægt að fara mun betur með fjármuni í ríkisrekstrinum og þar skiptir að sjálfsögðu máli (Forseti hringir.) hvernig við ráðstöfum fjármunum og það ríki gagnsæi eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, sem er mjög ánægjuleg framsetning á þessu máli.