151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

slysatryggingar almannatrygginga.

424. mál
[18:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég vil koma aðeins inn á 5. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um atvinnusjúkdóma og þeir skilgreindir. Þar segir:

„Með atvinnusjúkdómi er átt við sjúkdóm sem orsakast af vinnu eða aðstæðum í starfsumhverfi. […] Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um hvaða atvinnusjúkdómar teljast bótaskyldir.“

Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra þá verður gert yfirlit um bótaskylda atvinnusjúkdóma og það er af hinu góða. Vísað er til þess að í því samhengi skuli horft til tilskipunar frá Evrópusambandinu og auk þess er birtur listi yfir atvinnusjúkdóma sem eru nefndir í leiðbeiningum á vef Vinnueftirlitsins.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvernig staðið verður að gerð þessa lista. Þetta er náttúrlega ákaflega mikilvægt atriði. Er tæmandi talning eða tekið tillit til þessara leiðbeininga og farið eftir því sem birt er á vef Vinnueftirlitsins? Nú veit ég t.d. um starfsstétt sem hefur barist fyrir því að tiltekin tegund krabbameins verði viðurkennd sem atvinnusjúkdómur, og það eru slökkviliðsmenn. Ég ætla að fara yfir það í ræðu minni hér á eftir, bara til að vekja athygli á málinu. Það eru margar rannsóknir sem hafa verið gerðar á tíðni krabbameins (Forseti hringir.) meðal slökkviliðsmanna og benda þær allar til þess að tengsl séu á milli starfs slökkviliðsmanna (Forseti hringir.) og aukinnar tíðni krabbameins. En áður en ég kem að því þá spyr ég: Getur hæstv. ráðherra farið yfir þennan lista, hvernig hún sér þetta fyrir sér?