151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sjúklingatrygging.

457. mál
[18:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem fela í sér vissa útvíkkun á tryggingavernd laganna hvað varðar tryggingavernd í tilteknum klínískum lyfjarannsóknum.

Með heilbrigðisstefnu sem samþykkt var á Alþingi í júní 2019 hefur verið mótuð framtíðarsýn fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030. Í stefnunni kemur fram að vísindarannsóknir á heilbrigðissviði skuli vera sterk stoð heilbrigðiskerfisins og standast alþjóðlegan samanburð í gæðum og umfangi. Þá er í gildi stefna í vísindarannsóknum á heilbrigðissviði til ársins 2030 þar sem fram kemur að mikilvægt sé að hlúa vel að jarðvegi vísindarannsókna á heilbrigðissviði svo að íslenska heilbrigðiskerfið uppfylli hæstu gæðakröfur og geti staðist samanburð við önnur lönd. Stefnt er að því að árið 2030 verði til staðar enn betri aðstaða og innviðir til klínískra vísindarannsókna á heilbrigðisstofnunum hér á landi enda eru vísindarannsóknir á heilbrigðissviði til þess fallnar að tryggja frekari gæði þjónustunnar, efla hæfni heilbrigðisstarfsmanna og framþróun þjónustunnar í heild sinni.

Landspítali sem háskólasjúkrahús og Sjúkrahúsið á Akureyri sem kennslusjúkrahús gegna veigamiklu hlutverki í að afla nýrrar þekkingar í heilbrigðisvísindum en eitt af lögbundnum hlutverkum þeirra er að stunda vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, þar á meðal klínískar lyfjarannsóknir. Í reglugerð um klínískar lyfjarannsóknir er gerð sú krafa að þátttakendur í slíkum rannsóknum séu tryggðir fyrir mögulegum skaða sem orðið getur vegna þátttöku í þeim. Í flestum slíkum rannsóknir eru styrkir bakhjarlar sem hafa fjárhagslega burði til þess að tryggja þátttakendur og skila rannsakendur þá inn tryggingaskírteini því til staðfestingar til vísindasiðanefndar sem sér um að veita leyfi fyrir vísindarannsóknum hér á landi.

Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri hafa hins vegar heimild til að framkvæma rannsóknir að eigin frumkvæði og án aðkomu utanaðkomandi kostunaraðila, þ.e. bakhjarls. Sjúklingar þeirra njóta tryggingaverndar í gegnum miðlæga sjúklingatryggingu hjá Sjúkratryggingum Íslands. Það kemur hins vegar skýrt fram í gildandi lögum að tryggingavernd þeirra nær ekki yfir tjón sem rekja má til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð. Samkvæmt gildandi lögum eru þátttakendur í klínískum lyfjarannsóknum sem framkvæmdar eru á heilbrigðisstofnunum þar sem enginn bakhjarl er til staðar því ekki tryggðir með fullnægjandi hætti. Þetta hefur valdið Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri erfiðleikum við að sækja um og fá leyfi fyrir klínískum lyfjarannsóknum hjá vísindasiðanefnd og sinna þar með lögbundnu hlutverki sínu.

Virðulegi forseti. Með því frumvarpi sem hér er mælt fyrir er lagt til að tryggingavernd laga um sjúklingatryggingu verði útvíkkuð með þeim hætti að verndin nái yfir þátttakendur í klínískum lyfjarannsóknum þar sem rannsakendur eru ekki með bakhjarl. Er þetta gert með það að markmiði að tryggja þátttakendum tryggingavernd í kjölfar tjóns sem rekja má til eiginleika lyfja sem notuð eru við umræddar rannsóknir. Enn fremur er umrædd breyting lögð til með það að markmiði að gera rannsakendum á heilbrigðisstofnunum sem ekki hafa bakhjarl auðveldara fyrir að sækja um og fá leyfi vísindasiðanefndar fyrir klínískum lyfjarannsóknum og einfalda þannig að umsóknarferlið, líkt og kveðið er á um í vísindastefnu til ársins 2030. Öflugt vísindastarf er ein af mikilvægustu grunnstoðum hvers háskóla- og kennslusjúkrahúss og því mikilvægt að allar forsendur séu fyrir hendi svo að Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri geti sinnt því lögbundna hlutverki án vandkvæða.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins sem hér er til umræðu og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar og til 2. umr.