151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[18:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég skil spurninguna rétt er hv. þingmaður að halda því fram að þetta sé ekki í samræmi við Evrópusáttmálann um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Það er rangt. Það er röng staðhæfing hjá hv. þingmanni. Það var sérstaklega skoðað þegar Danir fóru í slíka vegferð á sínum tíma og það varð niðurstaðan á þeim tíma, ég held að það hafi verið árið 2005, að þar voru fjölmörg sveitarfélög sameinuð af löggjafarvaldinu án sérstakra kosninga þar um og jafnvel án þess að litið hefði verið til óska sveitarfélaganna um sameiningarkosti, sem við gerum ekki ráð fyrir hér. Það var niðurstaðan í skýrslu sendinefndar sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins, sem fylgdist með framkvæmd kosninganna, að þrátt fyrir að gert væri ráð fyrir að haft væri samráð um sameiningu sveitarfélaganna bæri löggjafarvaldinu ekki skylda til að taka til greina sjónarmið og óskir þeirra og þær voru heldur ekki taldar fara í bága við stjórnarskrá Danmerkur sem er, að mati hv. þingmanns, talsvert lík þeirri íslensku. Þess vegna fer þetta heldur ekki í bága við íslensku stjórnarskrána því hér á Alþingi getum við sett lög. Svo vil ég bæta því við, bara til upplýsingar, að eftirlitsnefnd með Evrópusáttmálanum hefur mælt með því að farið verði í frekari sameiningar hér á landi til að styrkja sveitarstjórnarstigið. Þannig að staðhæfing þingmannsins er hreinlega röng. Við höfum fjölmörg dæmi um að þetta sé í samræmi við sáttmálann, þessi framkvæmd, og önnur dæmi úr Evrópu þar að lútandi.