151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[18:59]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það eru tilfinningar í þessu máli, það eru sterkar skoðanir, þetta verða hitamál heima fyrir. Allt þetta ber okkur að vega og meta og sýna skilning. Mig langar að spyrja ráðherra um tvö atriði í frumvarpinu. Hér kemur fram að ráðherra sé veitt heimild til að veita sveitarfélagi tímabundna undanþágu til allt að fjögurra ára frá skilyrði um lágmarksíbúafjölda ef sérstakar aðstæður eru til staðar. Mig langar aðeins að spyrja út í þessar sérstöku aðstæður, hverjar þær eru samkvæmt mati.

Síðan langar mig að spyrja ráðherra aðeins um sjálfbærnina. Sveitarstjórnir, hefur maður upplifað, leggja ýmsa merkingu í hugtakið sjálfbærni. Sameinuðu þjóðirnar styðjast við hugtak sem er nú jafnan viðurkennt og notað í alþjóðlegu samhengi. Hver er skilgreiningin á sjálfbærni sveitarfélaga í þessu samhengi? Byggist það á umfangi stuðnings Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eða hvað?