151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld.

121. mál
[22:00]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir andsvarið. Nú þori ég ekki að segja til um það sem þingmaðurinn var að ræða um, hvers vegna svona góð tillaga fái ekki hraðari afgreiðslu og meira brautargengi í þinginu. Það er kannski vegna þess að það er alltaf hræðsla, m.a. í íslensku samfélagi, við að kalla eftir því að gjaldtöku sé breytt eða að snúið sé við einhverjum kúrs sem hefur áður verið. Að því leyti til er svona tillaga kannski tilraun til að komast ekki bara til umræðu heldur einmitt að kallast á við umræðuna í samfélaginu eins og þingmaðurinn kom inn á. Umræða um umhverfismál er mjög mikil í samfélaginu núna og það er fínt og þá má máta öðru hvoru tillögu eins og þessa við það.

Ég held að skilningur almennings á því að umhverfið sé ekki ókeypis og að heilnæmt loft og fallegt umhverfi sé ekki ókeypis sé stöðugt að aukast. Að því leyti til er töluverður skilningur í samfélaginu á því af hverju skynsamlegt gæti verið að gera svona. En svo er annað sem við, sem erum kannski að halda uppi umræðu í samfélaginu, ættum að gera meira af, það er að íhuga hversu mikill greiðsluviljinn er, eins og þingmaðurinn nefndi. Það eru ekki bara bíleigendur sem borga fyrir bíla heldur einnig allir hinir, þ.e. þeir sem eiga færri bíla borga nákvæmlega það sama til samfélagsins. Með því að segja að það sé allt í lagi að þeir sem eiga fjóra, fimm bíla borgi jafn mikið og þeir sem eiga bara einn, þá er í rauninni verið að láta þá sem eiga einn bíl borga fyrir hina.