151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

menntagátt.

122. mál
[22:07]
Horfa

Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér þingsályktunartillögu um menntagátt. Með mér á tillögunni er allur þingflokkur Miðflokksins. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að stofna til rafræns umsóknarferlis á sameiginlegu vefsvæði, svonefndrar menntagáttar, fyrir nám í ríkisreknum háskólum. Ráðherra feli starfshópi að útfæra menntagáttina þannig að í henni hafi umsækjendur aðgang að upplýsingum um það hvaða námsbrautir standi þeim til boða og þeim gert kleift að sækja um mismunandi námsbrautir eða skóla og raða umsóknum í forgangsröð. Þá kanni starfshópurinn hvort gera megi úrbætur á menntagátt fyrir framhaldsskóla og jafnframt hvernig best væri að útfæra sameiginlega menntagátt fyrir umsóknir um nám í framhaldsskóla og háskóla. Mennta- og menningarmálaráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í september 2021.“

Þessi tillaga var áður lögð fram á 150. löggjafarþingi en náði ekki inn í þingsal. Henni er fyrst og fremst ætlað að vera til hagræðingar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið, ríkisrekna háskóla, framhaldsskóla og nemendur. Núverandi kerfi býður upp á að umsækjendur geti sent margar umsóknir beint til háskólanna sem veldur því að erfitt er fyrir skólana að áætla nemendafjölda og gera viðeigandi ráðstafanir. Jafnframt geta umsækjendur orðið fyrir því að komast ekki að í því námi sem þeir sóttu um þegar of seint er að sækja um aðra námsbraut eða nám í öðrum skóla. Þá myndi menntagátt stuðla að gagnsæi þar sem hægt yrði að kynna sér framboð og eftirspurn í ákveðna skóla og námsbrautir.

Rafræn umsóknarkerfi fyrir nám á framhaldsskóla- og háskólastigi eru til í mismunandi myndum í nágrannalöndunum, t.d. í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Hollandi. Í Danmörku eru allar umsóknir um námsvist í framhaldsskóla og háskóla sendar rafrænt á sameiginlegu vefsvæði. Umsækjendur þurfa að kynna sér skólana og þær námsbrautir sem þeir bjóða upp á áður en sótt er um en þær upplýsingar er að finna á sérstökum vef danska barna- og menntamálaráðuneytisins. Það er mat flutningsmanna að danska kerfið geti verið góð fyrirmynd að íslenskri menntagátt.

Á vef Menntamálastofnunar er rafræn umsóknarsíða, þ.e. menntagátt, þar sem nemendur geta innritað sig í framhaldsskóla og raðað möguleikunum í forgangsröð. Þar er að finna upplýsingar um innritun í framhaldsskóla auk lista yfir skóla sem bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi. Hér er lagt til að starfshópnum verði falið að fara yfir það umsóknarferli til þess að athuga hvort úrbóta sé þörf og að hann útbúi einnig svipað kerfi fyrir háskólana og leiti leiða til að tengja þessi tvö kerfi saman.

Þrátt fyrir að tilkoma menntagáttar hefði í för með sér töluverðar breytingar á núverandi ferli umsókna í háskólanám er það mat flutningsmanna að slík gátt yrði til mikilla hagsbóta. Menntagátt myndi auka yfirsýn nemenda yfir námsframboð sem og yfirsýn skóla yfir nemendafjölda sem myndi leiða til aukins fyrirsjáanleika og auðvelda þannig rekstur skólanna til muna.

Ég geng út frá því að tillagan rati til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að umræðu lokinni.