151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

125. mál
[23:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ef ég skildi hann rétt þá talar hann um að þetta sé eðlilegt samstarfsverkefni. Ég spurði reyndar bara hvort hv. þingmaður tæki undir með mér að það væri eðlilegt að flytja þennan málaflokk yfir. Nú er ég bara að tala um yfirfærslu. Við höfum fært málaflokka frá ríki til sveitarfélaga, síðast voru það málefni fatlaðra. En ég hef velt fyrir mér að færa úrgangsmálin í öfuga átt, frá sveitarfélögum og yfir til ríkisins. En ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni um að ekki er hægt að leggja það á sveitarfélögin ein að ráðast í slíka fjárfestingu sem hér er verið að leggja til, sérstaklega í ljósi flækjustigsins. Við erum að tala um sorpbrennslu sem ætti að duga fyrir allt landið eða alla vega stóran hluta landsins.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á þær sorgarsögur sem við eigum af eldri sorpbrennslum. Ég man alla vega eftir þeim í Vestmannaeyjum, Ísafirði og Kirkjubæjarklaustri eða Vík, ég man ekki hvort það var. Þær voru örugglega komnar til ára sinna en margir gagnrýndu það þegar krafist var lokunar og það setti viðkomandi sveitarfélög í veruleg vandræði og þau vandamál hafa ekki verið almennilega leyst. Þess vegna hefur verið sorglegt að horfa upp á það að höfuðborgarsvæðið, þar sem mesta sorpið fellur auðvitað til, hefur líka verið að taka á móti sorpi vestan af fjörðum. Það er auðvitað gríðarlegur akstur og svo bætist ofan á það að pappírinn eða plastið eða hvað það er fer í sjóflutninga eitthvert út til Evrópu til endurvinnslu. Þá held ég að ég og hv. þingmaður getum alla vega verið sammála um mikilvægi þess að ríkið stígi inn í þetta mál. Ég tek undir það, mér finnst það óforsvaranlegt að við séum að flytja út sorp, óflokkað sorp. En ég talaði líka um það í ræðu minni að við þyrftum kannski að breyta hvötunum varðandi endurvinnslu þannig að hér opnist líka hvatar til að endurvinna úr því dýrmæta hráefni sem fellur til. Ég nefndi sérstaklega pappír og plast. En það er auðvitað hárrétt, sem hv. þingmaður kom inn á, að það eru auðæfi í ruslinu. (Forseti hringir.) Það getur verið í varmanum í hátæknibrennslustöðinni, (Forseti hringir.) það er metan í gas- og jarðgerðarstöðinni þannig að auðæfin eru þarna svo sannarlega og við þurfum að finna leiðir til að fanga þau og fara rétt með, sérstaklega út frá umhverfismálum.